Fréttaskýring: Mikilvæg samgöngubót komin í matsferli

Birt hefur verið frummatsskýrsla um umhverfisáhrif af lagningu nýs kafla Hallsvegar frá Víkurvegi í Grafarvogshverfi að Vesturlandsvegi og Úlfarsfellsvegi, sem er í beinu framhaldi af Hallsvegi. Þetta er mikil framkvæmd og áætlaður kostnaður á verðlagi í október 2008 er 2650 milljónir króna.

Að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar, getur matsferlið tekið 1-2 ár, allt eftir því hve margar athugasemdir berast við matsskýrslunum. VSO ráðgjöf vann matsskýrsluna. Í henni er m.a. lagt mat á umferð, hljóðvist, loftgæði, vatn og vatnalíf, gróður og fuglalíf og fornminjar.

Markmið þessarar vegagerðar er að tengja Grafarvogshverfi og hverfi í Hamrahlíðum og Úlfarsársdal við Vesturlandsveg og bæta tengingu hverfanna innbyrðis. Mislæg gatnamót við Vesturlandsveg eru talin nauðsynleg til að greiða fyrir umferð inn og út úr hverfunum sitt hvorum megin við Vesturlandsveg og bæta flæði umferðar um Vesturlandsveg. Þá felur framkvæmdin í sér byggingu brúar yfir Korpu (Úlfarsá). Hallsvegur verður 4 akreinar frá Vesturlandsvegi að Víkurvegi og áfram 2 akreinar frá Víkurvegi að Strandvegi. Búið er að leggja þann hluta vegarins. Úlfarsfellsvegur verður 4 akreinar. Hægt er að áfangaskipta framkvæmdinni.

20 þúsund bílar á dag

Samkvæmt umferðarspá mun umferð um fyrirhugaðan Hallsveg verða rúmir 20 þúsund bílar á dag, ef Sundagöng verða gerð. Umferð á Hallsvegi frá Víkurvegi að Strandvegi verður 8-11 þúsund bílar á dag. Verði ekki byggður nýr leggur Hallsvegar, sem tengir Grafarvog við Vesturlandsveg og Blikastaðaland, er áætlað að umferð um Víkurveg og Korpúlfsstaðaveg aukist sem nemur þeirri umferð sem ella hefði farið um nýjan Hallsveg. Umferð um fyrirhugaðan Úlfarsfellsveg er áætluð um 18 þúsund bílar á dag árið 2024. Sú umferð verður fyrst og fremst til og frá fyrirhugaðri íbúðabyggð í Hamrahlíðarlöndum. Ef Úlfarsfellsvegur verður ekki lagður mun umferðin fara um Mímisbrunn og Lambhagaveg. Umferðarspáin var gerð áður en bankahrunið varð, en óljóst er á þessari stundu hvaða áhrif þær hamfarir munu hafa á framtíðaruppbyggingu á svæðinu.

Niðurstaða skýrslunnar er sú, að áhrif á umferð á svæðinu verði jákvæð og að hún muni dreifast betur og draga úr álagi á einstökum vegum.

Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir gönguleið meðfram Hallsvegi, undir Vesturlandsveg og meðfram Úlfarsfellsvegi. Einnig er gert ráð fyrir gönguleið meðfram Úlfarsá, undir brúnni á Hallsvegi í átt að golfvellinum við Korpúlfsstaði. Reiðstígur verður samhliða.

Sem fyrr segir er kostnaðaráætlun við framkvæmdina 2,6 milljarðar. Hallsvegur og mislæg gatnamót á Vesturlandsvegi eru á seinna tímabili samgönguáætlunar 2003-2014. Verið er að endurskoða samgönguáætlun og er búist við að fé til framkvæmdarinnar geti komið á tímabilinu 2011-2014. Úlfarsfellsvegur telst ekki vera þjóðvegur og mun kostnaður við framkvæmdina lenda á Reykjavíkurborg. Vegurinn er ekki á framkvæmdaáætlun borgarinnar og væntanlega verður tekið mið af þróun byggðar um það hvenær ráðist verður í framkvæmdina.

Óveruleg röskun

Helstu neikvæðu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar samkvæmt matsvinnunni verða á hljóðvist við Úlfarsfellsveg. Einnig verða neikvæð áhrif á loftgæði, þar sem sólarhringsgildi svifryks mun líklega verða yfir mörkum. Lagt er til að gripið verði til mótvægisaðgerða, svo sem að þvo og rykbinda og draga úr ökuhraða þegar svifryk er mest.

Önnur áhrif eru talin veigaminni vegna eðlis síns. Þannig eru áhrif brúargerðar yfir Korpu talin óveruleg enda verði gerðar ráðstafanir t.d. til að ferðir fiska hindrist ekki. Korpa ásamt 200 metra breiðum bakka til hvorrar handar er á náttúruminjaskrá. Áhrif á gróðurfar eru jafnframt talin óveruleg.

Varpland fugla við Úlfarsá hefur þegar raskast vegna framkvæmda en kríuvarp gæti raskast vegna framkvæmda við Úlfarsfellsveg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert