„,Þetta var mjög góður fundur og að mörgu leyti breyting frá því sem við höfum búið við hingað til því umræðurnar voru opinskáar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Fjölmennum samráðsfundi forystumanna launþega og atvinnurekenda og forsvarsmanna sveitarfélaga með fjórum ráðherrum í Ráðherrabústaðnum lauk nú laust fyrir hádegi.
,,Ríkisstjórnin bauð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna til sín á þennan samráðsvettvang. Tilefnið var að kynna verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar og óska eftir samstarfi við okkur,“ sagði Gylfi eftir fundinn. Þar var farið yfir stöðuna í efnahags- og atvinnumálum, fyrirhugaðar aðgerðir í velferðarmálum og stöðu kjaramála.
Gylfi segir að ASÍ hafi lýst því yfir að samtökin væru reiðubúin til samstarfs við stjórnvöld um að hrinda fjölmörgum verkefnum á verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd, en samtökin hafi þó fyrirvara á útfærslu einstakra mála. „Þarna eru ærið mörg verkefni sem við teljum brýn og það ætti að vera hægt að mynda samstöðu um þau. Í ljósi þess að ríkisstjórnin er minnihlutastjórn, þá hvöttum við til þess að reynt yrði að eiga gott samráð og samstarf við Alþingi. Okkur sýnist að það ætti að vera hægt að mynda þverpólitíska samstöðu um megnið af því sem þarna er,“ sagði Gylfi