Réttlæti.is, sem eru samtök þeirra, sem töpuðu fé í peningamarkaðssjóðum Landsbankans, mótmælir ráðningu Ásmundar Stefánssonar í stól bankastjóra Landsbankans. Segir í tilkynningu frá samtökunum að það, að staðan sé ekki auglýst, séu ólíðandi vinnubrögð bankaráðsins.
„Okkur finnst þetta mjög undarlegt," segir Ómar Sigurðsson, einn forsvarsmanna samtakanna. „Ásmundur er ráðinn vegna óljósrar stöðu bankans. Hver er þessi óljósa staða? Er bankinn að fara á hausinn? Við setjum spurningamerki við þetta því okkur finnst þetta mjög undarlegt."
Í yfirlýsingunni segir m.a. að viðskiptavinir Landsbanka og skattgreiðendur almennt, sem í dag eru eigendur Nýja Landsbankans, eigi heimtingu á að stunduð séu lýðræðisleg vinnubrögð eftir að sem á undan er gengið. „Um miðjan janúar gaf formaður bankaráðs, Ásmundur Stefánsson út þá tilkynningu að staða bankastjóra yrði auglýst „á næstu dögum" eins og það var orðað þá. Nokkrum vikum síðar er tilkynnt um ráðningu Ásmundar sjálfs sem bankastjóra og um frestun umræddrar auglýsingar fram á haust. Í kvöldfréttum sjónvarps 5.feb. kom fram að bankaráðið hefði tekið þessa ákvörðun vegna „óvissu í rekstrarumhverfi bankans" Slík yfirlýsing hlýtur að vekja upp spurningar og er ekki til þess fallin að auka traust viðskiptavina bankans til hans. Við þetta bætist að bankaráðið hunsar tilmæli viðskipta- og fjármálaráðherra í núverandi ríkisstjórn um að auglýsa stöðuna hið fyrsta," segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að Ásmundur og Elín Sigfúsdóttir bankastjóri hafi fundað með forsvarsmönnum Réttlætis.is í byrjun desember, þar sem þau hafi gert tilraun til að réttlæta tap peningamarkaðssjóða bankans. „Það var ekki til umræðu að bankinn kæmi að nokkru leyti til móts við okkur," segir Ómar.
Hann segir ráðningu Ásmundar þó ekki breyta neinu um framvindu málareksturs Réttlætis.is. „Við höldum einfaldlega áfram á fullu og okkar lögmaður er með mál fyrir fleiri hundruð manns sem hann er að reka núna gegn bankanum. Við erum ekki hrifin af framgöngu Ásmundar í bankanum, en það er búið að sýna fram á að bankinn hefur algerlega klúðrað þessu máli. Hann hefur viðurkennt að hafa markaðssett peningasjóðinn ólöglega en hins vegar er enginn vilji sýndur til að leiðrétta það."
Ómar bætir því við að nú sé bara dómstólaleiðin eftir fyrir félaga samtakanna, og vinnur lögmaður þeirra að því máli. „Ég get ekki séð neitt annað í stöðunni núna."