„Öll ríkin hafa sérhagsmuni sem standa ímynd þeirra, menningu og sjálfsmynd nærri. Ekki síður efnahagslega sérhagsmuni. Ég held að saga síðustu stækkana Evrópusambandsins sýni að ríki fái yfrileitt sérlausnir í þeim málum sem eru þeim sérstök,“ segir Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, í samtali við mbl.is. „Það myndi ekki þjóna hagsmunum ESB að semja um aðild við Íslendinga á þann hátt að þeir telji sig hafa verið rænda hagsmunum sínum. Það er hagur allra að íslenskur útvegur þrífist og blómstri og að Íslendingar færi sérþekkingu sína og leiðtogahæfni í þessum málaflokki til ESB,“ bætir hún við.
Wallis er hér ásamt sendinefnd frá Samtökum frjálslyndra flokka á Evrópuþinginu, til að kynna sér efnahagshrunið á Íslandi, stöðu mála í kjölfar þess og þróun Evrópuumræðunnar hér á landi. Ásamt henni í sendinefndinni eru Bilyana Raeva frá Búlgaríu, sem er formaður sendinefndarinnar, Olle Schmidt frá Svíþjóð og Jelko Kacin frá Slóveníu. Þau funduðu m.a. í dag með utanríkismálanefnd Alþingis, umhverfisráðherra, fulltrúum úr Evrópunefnd stjórnvalda og með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila til að ræða stöðu Íslands í Evrópu.
Frjálslyndir og demókratar á Evrópuþinginu hafa bundið samtökum, sem kallast ALDE, Samtök frjálslyndra flokka. Þessi samtök segjast munu styðja aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, ef til hennar kemur.
„Við höfum átt áhugaverða og hugvekjandi fundi í dag. Við erum úr hópi Evrópusinna og stækkunarsinna innan ESB og teljum að það væri jákvætt ef stjórnmálamenn á Íslandi tækju upp jákvæða stefnu gagnvart Evrópusambandinu til lengri tíma. Það gæti hjálpað til við efnahagserfiðleikana og óstöðugleika gjaldmiðilsins, ESB býður upp á vissar lausnir í þeim efnum,“ segir Wallis.
Spurð um skýr svör um það, hvort hún telji að Íslendingar geti fengið varanlegar undanþágur frá hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, segir hún að á endanum sé nálgunin við málaflokkinn innan ESB sameiginleg og þurfi að virka fyrir alla. „En ég ítreka að öll dæmi sanna að jafnvel smáríki geti innan ESB tekið sér leiðtogahlutverk í þeim málum sem skipta þau miklu máli. Dæmi má taka af Slóveníu. Slóvenía varð fyrst sjálfstætt ríki fyrir aðeins fáeinum árum síðan. Nú er það meðlimur í ESB, hefur tekið upp evruna og luku fyrir sex mánuðum eins árs forsetatíð í ráðherraráðinu. Það er því ekkert sem segir að smáríki geti ekki notið mikillar velgengni og fengið sínu fram innan ESB.“
Wallis segir að einna helst hafi komið sendinefndarmönnum á óvart að umræðan hér snýst enn um það hvort sækja eigi um aðild eða ekki. Hver útkoman gæti orðið með tilliti til sjávarútvegsins. „Raunveruleikinn er sá að það þarf að sækja um og sjá um hvað er hægt að fá út úr samningunum. Á meðan Ísland bíður með að varpa þeirri spurningu fram við ESB eiga mjög neikvæðar umræður eftir að halda áfram, sem ég tel að sé ekki mjög hjálplegt. Þið þurfið að sækja um. Þið gætuð fengið jákvætt svar eða neikvætt svar. Í hvoru tilfellinu sem er hafið þið alltaf möguleikann á því að segja nei og ganga ekki inn. En þangað til þið spyrjið spurningarinnar um aðild, þá vitið þið ekki hvað er í boði.“