Tæknilegar ábendingar í trúnaði

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af umræðunum á Alþingi í dag, þar sem spurt var um umsögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands.

„Eftir að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands hafði verið dreift á Alþingi í síðustu viku og það þýtt á ensku sendu embættismenn forsætisráðuneytisins enska þýðingu frumvarpsins til upplýsingar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Var það gert í samræmi við vinnubrögð og alþjóðlegar hefðir í samskiptum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar unnið er á grundvelli sameiginlegrar efnahagsáætlunar.

Í framhaldi af því fékk ráðuneytið nokkrar tæknilegar ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem sendar voru í trúnaði og bárust ráðuneytinu í tölvupósti um sl. helgi. Ráðherra fékk þær í hendur eftir umræður á Alþingi í dag.

Í ljósi umfjöllunar um ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Alþingi í dag hefur forsætisráðuneytið átt í viðræðum við fulltrúa sjóðsins um hvort aflétta megi þeim trúnaði sem áskilinn var af hans hálfu. Í framhaldi af því sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér svohljóðandi yfirlýsingu nú síðdegis:

„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sendi ekki bréf til ríkisstjórnarinnar í tengslum við væntanlegar breytingar á yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Að beiðni yfirvalda veitti sjóðurinn í síðustu viku stutt bráðabirgðamat á fram komnum breytingatillögum við Seðlabankafrumvarpið, byggt á bestu venjum á alþjóðavettvangi. Með hliðsjón af margskonar sérfræðiþekkingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, leita aðildarríki hans oft á tíðum ráðgjafar hjá honum um löggjöf í kringum seðlabanka sína.“ (Þýðing mbl.is)

Forsætisráðuneytið hefur þegar óskað eftir því við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að sem fyrst verði send formleg umsögn, sem ekki sé bundin trúnaði, og verði birt opinberlega þegar hún berst og kynnt viðskiptanefnd Alþingis sem hefur frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands nú til umfjöllunar,“ segir í tilkynningunni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert