Sendinefnd frá Samtökum frjálslyndra flokka á Evrópuþinginu lýsir stuðningi við aðild Íslands að Evrópusambandinu og mikilvægi þess að tekið sé tillit til sérhagsmuna Íslands í aðildarviðræðum við sambandið, ef til þeirra kemur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framsóknarflokknum en sendinefnd frá
Samtökum frjálslyndra flokka á Evrópuþinginu er stödd hér á landi til að kynna sér efnahagshrunið á Íslandi og stöðu mála í kjölfar þess og fara yfir þróun Evrópuumræðunnar hér á landi.
Í sendinefndinni eru Evrópuþingmennirnir Diana Wallis frá Bretlandi, varaforseti Evrópuþingsins, Bilyana Raeva frá Búlgaríu, sem er formaður sendinefndarinnar, Olle Schmidt frá Svíþjóð og Jelko Kacin frá Slóveníu.
Þingmennirnir munu í dag m.a. eiga fund með utanríkismálanefnd Alþingis, umhverfisráðherra, fulltrúum úr Evrópunefnd stjórnvalda og með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila til að ræða stöðu Íslands í Evrópu. Þá mun hún halda blaðamannafund síðdegis.