Vara við útgreiðslu viðbótarsparnaðar

„Við vörum við rýmkun reglna um útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar en gerum okkur grein fyrir hinum pólitíska vilja sem nú er á Alþingi. Við viljum þá frekar taka þátt í því að reyna að gera þetta þannig úr garði að það raski sem minnst því kerfi sem byggt hefur verið upp í kringum viðbótarsparnað og nýtist þá þeim sem hafa mesta þörfina. Útgreiðsla viðbótarsparnaðar hjálpar því fólki lítið sem er komið að því að missa allt sitt vegna greiðsluerfiðleika,“ segir Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða þinguðu með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær, þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, utanríks- og iðnaðarráðherra og Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra.

Breytingar á viðbótarlífeyrissparnaði eru í pípunum en boðað hefur verið stjórnarfrumvarp um takmarkaða útgreiðslu viðbótarsparnaðar. Þá er Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, fyrsti flutningsmaður að frumvarpi þingflokks Sjálfstæðisflokksins um sama efni. Tilgangurinn er að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum.

Grefur undan lífeyriskerfinu 

Fulltrúar Landssamtaka lífeyrissjóða telja varhugavert að rýmka reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar frá því sem nú er. Slík ráðstöfun er að þeirra mati til þess fallin að grafa undan stoðum núverandi fyrirkomulags lífeyrismála. Frjáls einstaklingsbundinn sparnaður er ein þriggja stoða lífeyriskerfis landsmanna. Talsmenn lífeyrissjóðanna segja að ef opnað verði fyrir úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar, veiki það uppbyggingu kerfisins mjög, auki álag á almannatryggingakerfið í framtíðinni og þar með skattbyrði komandi kynslóða.

Þriðjungur í skatta

Viðbótarlífeyrissparnaður landsmanna er nú samtals um 250 milljarðar króna. Að óbreyttum lögum má gera ráð fyrir því að rúmur þriðjungur af þeim sparnaði sem einstaklingar kysu að taka út, rynni til ríkissjóðs í formi staðgreiðslu skatta. Staðgreiðslan í dag er 37.2%, það er 24.1% tekjuskattur og meðaltalsútsvar 13,1%.

Langflestir eiga um eða innan við eina milljón króna í viðbótarsparnaði. Skattgreiðslur af einni milljón nema 372 þúsund krónum þannig að sá sem ætlar að taka út milljón af viðbótarlífeyrissparnaði fær greiddar út 628 þúsund krónur.

„Við vildum gera grein fyrir sjónarmiðum lífeyrissjóðanna. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að ef að það er pólitískur vilji fyrir því á Alþingi, sem virðist vera, að heimila einhverja tímabundna útgreiðslu á hluta viðbótarsparnaðarins, að uppfylltum ákveðnum reglum, þá skiljum við það. Það er auðvitað eitthvað sem stjórnvöld ráða og heimila. Við leggjum bara gríðarlega mikla áherslu á að menn vandi sig í því, missi þetta ekki frá sér. Maður skilur vanda fólksins en menn verða að gæta sín á því að þessar útgreiðslur riðli ekki um of því kerfi sem búið er að byggja upp,“ segir Arnar Sigurmundsson.

Leysir ekki vanda hinna verst settu

Arnar segir lífeyrissjóðina hafa varað sérstaklega við að úttekt viðbótarsparnaðar leysi ekki vanda þeirra sem verst eru settir.

„Lánastofnanir eru ef til vill farnar að ókyrrast gagnvart viðkomandi og þær gætu þrýst á einstakling um að taka út viðbótarsparnaðinn. Framan af var rætt um að viðbótarsparnaður yrði notaður til að greiða niður höfuðstól. En það sér það hver maður að þó greidd sé um eða innan við milljón inn á höfuðstól láns þar sem höfuðstóllinn er 25 milljónir eða jafnvel meira segir lítið. Slíkt leysir ekki vanda þess sem er kominn í þrot. Fyrir þann sem á viðbótarsparnað er þetta ekki álitlegur kostur og alls ekki fyrir þá sem verst eru settir,“ segir Arnar Sigurmundsson.

Þá hefur verið á það bent að samkvæmt lögum er séreignarsparnaður ekki aðfararhæfur. Einstaklingur gæti freistast til að nýta viðbótarsparnað til að lækka skuldir eða gert það að kröfu lánardrottins. Ef allt fer á versta veg og viðkomandi verður gjaldþrota, er staða hans sú að hann er bæði gjaldþrota með þeim afleiðingum sem það hefur almennt og búinn að tapa lífeyrissparnaði sínum, sparnaði sem ætlaður var til að standa undir hluta af framfærslu þegar til töku ellilífeyris kemur.

Arnar Sigurmundsson segir að huga verði gaumgæfilega að þessum þætti og eins hvort ekki beri að setja þröngar skorður við útgreiðslu viðbótarsparnaðar.

„Ég held að frumvarpið komi fram, það er búið að taka hina pólitísku ákvörðun, bæði af fyrri ríkisstjórn og eins þeirri sem nú situr. Þær girðingar sem þyrfti að setja gætu verið skilyrði um hámarksútgreiðslu og í hvað nýta mætti viðbótarsparnaðinn. Þá mætti hugsa sér að dreifa útgreiðslum á lengra tímabil, til dæmis að tengja það greiðsluáætlun í samráði við viðskiptabanka viðkomandi, þegar til dæmis um tekjumissi í kjölfar atvinnuleysis er að ræða. Þá mætti hugsa sér að nýta sparnaðinn hjá viðkomandi til að halda lánum í skilum,“ segir Arnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert