Atli Gíslason, þingmaður VG, segir að blasað hafi við að stjórnarskrárbrot fælist í lögum um fjármálafyrirtæki, sem Alþingi samþykkti í nóvember. Hann hafi varað Sturlu Böðvarsson, þáverandi forseta Alþingis við því að stjórnarskrárbrot væri í uppsiglingu, en Sturla hafi hunsað aðvaranirnar.
Lagabreytingin sem um ræðir gekk út á að málshöfðunum gegn fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun ætti að fresta á meðan á greiðslustöðvun stæði. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því í dag að fresta máli sem höfðað var gegn Glitni á meðan greiðslustöðvun bankans stendur. Segir í úrskurði dómarans að lögin gangi gegn stjórnarskránni og að réttindum, sem stjórnarskránni sé ætlað að tryggja, verði ekki breytt eða þau felld úr gildi með almennri lagasetningu.
Atli var í minnihluta viðskiptanefndar Alþingis þegar lagabreytingin var samþykkt. Hann skilaði séráliti í nefndinni eftir 2. umræðu í nóvember. Þar segir Atli að með lagabreytingunni sé tekinn af stjórnarskrárbundinn réttur einstaklinga og lögaðila til að leita til dómstóla um ágreining auk annarra frávika. Hann gagnrýndi málsmeðferðina harðlega og gerði kröfu til þess að málinu yrði frestað og vísað á nýjan leik til viðskiptanefndar og leitað réttarfarsnefndar. „Frumvarpið með áorðnum breytingum er enn vanhugsað og ófaglegt og það sem verra er, felur í sér skerðingu á mannréttindum. Þá er lagasmíðin í hróplegri andstöðu við Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. Verið er að feta vafasamar brautir sem kunna að valda stórfelldu tjóni og kippa grundvelli neyðarlaganna í burt. Hér er réttarfarslegt slys einnig í uppsiglingu. Vinstri hreyfingin grænt framboð lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna málsins.“
Svo virðist sem héraðsdómur sé Atla alfarið sammála og úrskurði í samræmi við sjónarmið hans.
,,Mér skilst að þetta mál sé í vinnslu í viðskiptaráðuneytinu," segir Atli í samtali við mbl.is. „Mér skilst að farið hafi verið í það fljótlega eftir lagasetninguna. Þetta er víti til varnaðar. Þetta er fyrir neðan virðingu Alþingis. Það var hægt að gera lögin þannig úr garði að þau stæðust. Stjórnarskrárbrotið kom fram eftir aðra umræðu. Þá varaði ég forseta Alþingis sérstaklega við því að þetta væri stjórnarskrárbrot. Það er æðsta skylda þingmanna að standa vörð um stjórnarskrána og þingforseti er okkar yfirmaður í þeim efnum.“
Atli segir að sem stjórnarþingmaður muni hann beita sér sérstaklega fyrir því að afgreiðslu málsins verði hraðað í viðskiptaráðuneytinu.