Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, upplýsti á borgarafundi á Akureyri í gær að fjármálastofnanir hefðu hótað að hætta að styrkja deildina yrði hann þar áfram við störf. Yfirskrift fundarins var Landráð af „gáleysi“.
Í samtali við Morgunblaðið vildi Vilhjálmur hvorki upplýsa hvaða fjármálastofnanir þetta væru né hvers vegna þær hefðu viljað losna við sig. Hann kveðst hins vegar reiðubúinn til að gera þeim aðilum sem fást við rannsókn málsins grein fyrir sinni hlið verði eftir því óskað.
Vilhjálmur kveðst hafa fengið þessar ábendingar fljótlega upp úr aldamótum og þetta sé partur af þeirri þöggun sem átt hafi sér stað í þjóðfélaginu. „Það urðu allir að spila með,“ segir hann.
Vilhjálmur viðurkennir að hafa óttast um starf sitt í kjölfarið, ekki síst í ljósi þess að hann var lausráðinn. „Ég vissi satt best að segja ekki á hverju ég átti von en mínir samkennarar stóðu alltaf með mér. Ég kvarta því ekki undan þeim.“