Vill fjölga norrænum sendiráðum

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að með sameiginlegum rekstri sendiráða geti …
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að með sameiginlegum rekstri sendiráða geti Norðurlöndin sparað umtalsverðar fjárhæðir. mbl.is/Dagur

„Ein tillagan sem að er mjög æskileg frá sjónarhóli okkar varðar stóraukið samstarf á sviði utanríkisþjónustu. Í því gæti falist, til dæmis, aukið samstarf við rekstur sendiráða. Það er mjög góð reynsla af því að hafa öll norrænu sendiráðin saman í Berlín,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, um tillögu sem rædd var á ráðherrafundi í Ósló í dag.

Tilefni fundarins var ný skýrsla Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkis- og varnarmálaráðherra Noregs, um leiðir til aukins samstarfs Norðurlandanna í varnar- og öryggismálum á Norðurslóðum.

Var skýrslan unnin í samvinnu við sérfræðinga í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi og á Íslandi og voru Kristrún Heimisdóttir og Guðmundur Alfreðsson fulltrúar íslenska utanríkisráðuneytisins í samstarfinu.

Össur segist hafa lagt áherslu á að hugmyndin verði tekin til skoðunar.

„Ég lagði mikla áherslu á að þetta yrði skoðað í þaula og dró enga dul af því að fyrir litla þjóð eins og Ísland, sem þyrfti að draga saman seglin í kreppu, yrði þetta mjög öflug lausn við að halda úti víðfeðmu neti sem að kostaði lítið.

Þetta er af þeirra hálfu ekki síður hugsað þannig að í heimshlutum sem eru fjarri Norðurlöndunum að þar væri mjög gott fyrir Norðurlöndin að starfrækja öfluga útstöð.

Okkar sýn er hins vegar sú að þetta ætti að skoða miklu nær okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka