Náttúruverndarsamtökin WWF (World Wide Fund for Nature) hafa sent Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra bréf vegna hvalveiða.
Þar er ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um að leyfa veiðar á 100 hrefnum og 150 langreyðum á næsta ári sögð stríða gegn alþjóðlegum aðgerðum í þá átt að koma hvalveiðum undir alþjóðlega stjórn, og að ákvörðunin ógni orðspori íslands á alþjóðavettvangi, á tíma þegar jákvæð alþjóðatengsl séu mikilvægari en áður. Sérstaklega uppörvandi sé því að ríkisstjórn Jóhönnu muni taka ákvörðunina til endurskoðunar.
Í dag klukkan 15.30 verður utandagskrárumræða á Alþingi um hvalveiðar.
Í bréfinu er tekið fram að samtökin leggist gegn hvalveiðum þangað til að „hvalastofnar hafi náð sér, og stjórnvöld ríkja heims hafa komið alþjóðlegri stjórn á, með varfærinni, verndarsinnaðri og raunhæfri veiðistjórnun, undir kerfi sem allar hvalveiðiþjóðir fylgja að málum.“
Þá segjast leiðtogar samtakanna í bréfinu nú vita að hlýnun jarðar sé ekki síst vaxandi ógn við hvali, og muni auka á allar aðrar ógnir við þær tegundir. Þau geti þess vegna ekki verið andvaralaus þegar kemur að því að draga úr öllum öðrum ógnum við hvali, svo sem veiðum.
Hvalir séu mjög víðförul dýr og því sé nauðsynlegt að veiðistjórnun á þeim sé alþjóðleg því annars muni hún bregðast. Alþjóðahvalveiðiráðinu hafi enn sem komið er ekki tekist að koma á þessu alþjóðlega kerfi.