Birgir upplýsi hvar hann frétti af tölvupósti

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Þingmenn hafa í upphafi þingfundar í dag rætt um tölvupóst, sem forsætisráðuneytið fékk frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um Seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjáflstæðisflokksins, spurði hvort athugasemdir gjaldeyrissjóðsins við frumvarpið yrðu gerðar opinberar. Sagði Birgir að á fundi viðskiptanefndar þingsins í morgun hefði komið fram hjá embættismönnum forsætisráðuneytisins, að um væri að ræða trúnaðarupplýsingar samkvæmt ósk gjaldeyrissjóðsins en það væri óskiljanlegt að leynd hvíldi yfir þessum hlutum.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og formaður viðskiptanefndar, sagði að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði óskað eftir formlegri umsögn sjóðsins um Seðlabankafrumvarpið og sú umsókn yrði send viðskiptanefnd um leið og hún bærist.

Sagði Álfheiður, að fráfarandi ríkisstjórn hefði brotið niður traust með því að halda upplýsingum leyndum, þar á meðal upplýsingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi nú að allar upplýsingar væru upp á borðinu, sagðist hún skora á Birgi að upplýsa hvernig hann fékk vitneskju um tölvupóst Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en forsætisráðherra frétti af honum.

En Birgir spurðist á Alþingi í gær fyrir um bréf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þá sagðist Jóhanna Sigurðardóttir ekki hafa um það vitneskju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka