Braut gegn barnungri dóttur sinni

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Karlmaður var í gær dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjaness. Maðurinn var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni fæddri 2005. Brotin áttu sér stað frá sumri 2006 til nóvember 2008. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá desember á síðasta ári. Hann var að auki dæmdur til að greiða dóttur sinni 900 þúsund krónur í bætur.

Bæði maðurinn og barnsmóðir hans hafa verið skjólstæðingar félagsmálayfirvalda frá því að dóttirin fæddist. Þau eru bæði öryrkjar og stunda ekki vinnu. Strax eftir fæðingu barnsins var talin ástæða til að fylgjast með hvernig því vegnaði sökum vandamála foreldranna.

Forsjárhæfni foreldranna var metin í júní 2005, skömmu eftir að dóttirin kom í heiminn. Meginniðurstöður sálfræðings voru þær að hann taldi stefnuleysi, geðsjúkdóma og ýmsa andlega bresti einkenna líf þeirra og hugsun þeirra væri of óskýr og dómgreind slök, ekki síst í tengslum við framtíð barnsins og uppeldi þess. Taldi sálfræðingurinn nauðsyn á miklum og langvarandi stuðningi við fjölskylduna.

Barnaverndarnefnd höfðaði mál í febrúar 2007 á hendur foreldrunum og var gerð sú krafa að þau yrðu svipt forsjá. Krafan náði ekki fram að ganga.

Í apríl 2008 hóf stúlkan að sækja leikskóla. Frá upphafi skólagöngu sýndi hún mikið óöryggi og vanlíðan. Í október sama ár fór félagsráðgjafi frá félagsþjónustu í leikskólann og ræddi við stúlkuna.

„Hún sýndi henni bókina „Þetta er líkaminn minn“ og fljótlega nefndi [stúlkan] orðið „tyggja“. Þegar henni voru afhentar tvær dúkkur, annars vegar stelpudúkka og hins vegar strákadúkka, afklæddi hún þær og lét kynfæri þeirra snertast aftan frá. Aðspurð um hvernig stelpunni liði sagði hún að henni væri illt í pjöllunni og tók krem og makaði á kynfæri stelpudúkkunnar. Síðan klæddi hún sig úr að neðan og tók stelpudúkkuna og setti milli fóta sér og hreyfði sig með kynferðislegum mjaðmahnykkjum. Kallaði hún þessa athöfn að ,,tyggja“,“ segir í dómnum.

Þegar leið á rannsóknina beindist grunur því æ sterkar að föður stúlkunnar og að lokum að honum einum. Hann hefur hins vegar staðfastlega neitað sök. 

Í niðurstöðum dómsins segir að hegðun stúlkunnar bendi til margendurtekinnar upplifunar og virkar bæði sterk og sönn. Það er mat dómsins að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegri reynslu, brotið hafi verið gegn henni á alvarlegan hátt og hún ítrekað misnotuð. 

Framburður föðurins hefur verið reikull og ótrúverðugur. Hefur hann gefið ýmsar skýringar á hegðun stúlkunnar eins og að Pólverjar hafi átt hlut að máli, að hálfbróðir hans eða móðir hafi hugsanlega misnotað stúlkuna, sem hann taldi síðar af og frá, og loks að fóstrur í leikskólanum ættu hlut að máli, sem hann taldi þó ólíklegt.

Þá viðurkenndi faðirinn að hann eigi það til að segja stundum ósatt, sérstaklega þegar hann er undir álagi eins og í yfirheyrslu hjá lögreglu. Loks hafði ákærði ríka tilhneigingu til að fegra sjálfan sig í yfirheyrslum hjá lögreglu og fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert