Eldur kom upp á Litla-Hrauni

Fangelsið að Litla-Hrauni.
Fangelsið að Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar

Eldur kom upp á Litla-Hrauni í kvöld, þegar fangar kveiktu í ruslafötu. Lögregla fékk útkall vegna eldsins um kl. 20.50 og fóru lögreglumenn á staðinn auk fulltrúa frá brunavörnum Árnessýslu.

Eldurinn reyndist minniháttar og var algerlega afmarkaður við umrædda ruslatunnu. Fangaverðir náðu að slökkva eldinn áður en slökkvilið kom á staðinn. Reykur varð þó nokkur og þurfti að reykræsta. Lögreglumenn eru farnir af staðnum og að sögn lögreglunnar á Selfossi er slökkvilið að ljúka reykræstingu.

„Það var þannig að það skapaðist ástand, eins og stundum gerist í fangelsi, að það þurfti að loka menn inni á einni deild fyrr en ætlað var. Síðan kviknar í  einum klefa,“ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins. Segir hún lögregluna gruna að um íkveikju, ýmist viljandi eða óviljandi, hafi verið að ræða í umræddri ruslatunnu.

Margrét segir starfsfólk fangelsisins hafa brugðist hárrétt við aðstæðum, enda sé það þrautþjálfað til þess að bregðast hratt og örugglega við kringumstæðum sem þessum. 

Spurð af hverju þurfti hafi að loka fangana inni fyrr en vanalega segist Margrét ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu, en bendir á að ýmsar ástæður geti verið fyrir því, t.d. þegar upp komi fíkniefnamál, eineltismál eða ef alvarleg brot eru á reglum fangelsisins.

„En þetta er aldrei gert nema rík ástæða sé til þess. Og það er aldrei einhver einn maður sem ákveður slíkt, heldur er það samstarf þeirra starfsmanna sem eru á vakt sem meta aðstæður. Þeir eru þjálfaðir í að meta aðstæður. Og þetta er aðeins gert ef talin er hætta fyrir öryggi eða ró í fangelsinu,“ segir Margrét og tekur fram að aðdragandi málsins verði rannsakaður sérstaklega af lögreglunni og menn væntanlega teknir til yfirheyrslu á morgun. 

Margrét segir það litið mjög alvarlegum augum þegar eldur kemur upp á Litla-Hrauni þar sem fjölmenni sé á staðnum, bæði starfsmenn og þeir sem dvelja í húsinu.  „Það er alvarleg þegar kviknar eldur og við tökum í samræmi við það, en við gerum það rólega og yfirvegað.“

Margrét Frímannsdóttur
Margrét Frímannsdóttur mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert