Bæjarráð Vestmannaeyja fagnaði í dag samkomulagi sem náðst hefur við ríkið um byggingu menningarhúss í bænum. Á fundi ráðsins í dag var tekið fyrir samkomulag sem undirritað var í janúarlok milli bæjarins og þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um 280 milljóna króna styrk ríkisins til byggingar hússins.
„Bæjarráð fagnar samkomulaginu. Í því er fólgin gríðarleg viðurkenning á þeim sóknarfærum sem Vestmannaeyingar eiga á sviði menningartengdar ferðaþjónustu,“ segir í bókun bæjarráðs vegna málsins.
Ríkissjóður greiddi 94 milljónir króna við undirritun samningsins og því er ljóst að framkvæmdir geta hafist fljótlega, samkvæmt fundargerð bæjarráðs. Heildarkostnaður við húsin er áætlaður 700 milljónir króna, svo bærinn þarf að leggja til 420 milljónir.