„Það eru til margar ástæður til að öfunda íbúa Norður-Evrópu. Á hverjum degi fá þér að njóta hrárrar og tilkomumikillar náttúru, töfrandi arkitektúrs og innkaupa á heimsmælikvarða.“ Þannig hefst grein á vefútgáfu Forbes tímaritsins, þar sem Ísland trónir á toppi lista yfir heilsusamlegustu lönd heimsins til að búa í. Svíþjóð og Finnland eru þar í hópi með Íslandi.
Tölurnar sem blaðamenn Forbes skoðuðu eru upprunnar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, Alþjóðabankanum og Sameinuðu þjóðunum., en þann fyrirvara ber þó að hafa á að ekki voru öll lönd tekin með í dæminu vegna skorts á gögnum, Noregur, Lúxemborg, Nýja Sjáland, Írland og Andorra eru þar á meðal.
Gögnin sem miðað var við voru loftmengunartölur, aðgangur fólks að vatni til neyslu og hreinlætis, ungbarnadauði, tíðni berklasýkinga, fjöldi lækna á hverja þúsund íbúa, tíðni vannæringar og lífslíkur karla.
Fyrir utan háar einkunnir í vatns- og næringarmálum voru Ísland og Svíþjóð með einna minnstu loftmengunina, ungbarnadauðann og hvað fæstar berklasýkingar. Ísland og Svíþjóð voru líka með einna mestar líkur á heilbrigðu langlífi karla, 72 ár.
Miklar lífslíkur segja mikið um velferð íbúanna, er haft eftir Yohannes Kinfu, tölfræðingi við WHO. Löndin með hæstu tölurnar eru líka oft með mikla landsframleiðslu á hvern mann, aðgengileg heilbrigðiskerfi og lága tíðni smitsjúkdóma, eins og til dæmis HIV/AIDS.
Rannsóknir hafa sýnt að loftmengun getur til langs tíma haft áhrif á virkni lungnanna og leitt til dauða fyrir aldur fram.
Velgengni ríkja við að berjast gegn loftmengun er líklega blanda af aðgerðum gegn vandamálinu, eftirfylgni við heilbrigðisstaðla og notkun hreinna orkugjafa, er haft eftir Kiran Pandey, umhverfishagfræðingi við Global Environment Facility, stofnun sem tengist Alþjóðabankanum. Sumir staðir, eins og þeir sem liggja nálægt sjó, eru einfaldlega heppilegri en hinir, þar sem hafvindar geta þynnt út lofmengunina, segir Pandey.
Lág tíðni ungbarnadauða gefa vísendingu um ákveðnar félagslegar og efnahagslegar aðstæður fólks. Til dæmis tekjur heimilanna, sem hafa áhrif á þá næringu og heilsugæslu sem börn njóta, og hvort að fjölskylda er upplýst um smitvarnir, að sögn Kinfu. Tékkland er einnig með einna lægstu tíðni ungbarnadauða í heiminum, samkvæmt rannsókninni.
Og á meðan hátt hlutfall lækna á ákveðnu svæði þarf ekki endilega að leiða til þess að íbúarnir séu heilsuhraustir, vegna misgóðs aðgengis að læknunum, þá er það að öllu jöfnu jákvætt merki. Ísrael er með mjög hátt hltufall lækna af mannfjöldanum, samkvæmt gögnum WHO frá árinu 2007.
Jen Kates, varaforseti og stjórnandi HIV/AIDS baráttu Kaiser Fjölskyldustofnunarinnar, samtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og einbeita sér að málefnum heilbrigðisþjónustunnar í Bandaríkjunum, segir að jafnvel þótt meðalmaðurinn gangi eflaust að heilbrigðisþjónustunni sem vísri, eða veiti henni litla eftirtekt, þá skipti aðgengi að þeirri þjónustu miklu máli fyrir það hvort almenningur er heilbrigður eða ekki. „Allir þurfa að vera meðvitaðir um að það hvernig við veitum heilbrigðisþjónustu í einstökum löndum er úrslitaþáttur.“