Loftmengun yfir heilsuverndarmörkum

Líklegt er að loftmengun verði yfir heilsuverndarmörkum í dag. Kalt er í lofti, lítill raki og logn og götur þurrar.  Bæði svifryk (PM10) og köfnunarefnisdíoxíð (NO2) gæti því farið yfir mörkin við helstu umferðargötur á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir í tilkynningu frá umhverfissviði Reykjavíkurborgar.

„Bílaumferðin er meginorsök loftmengunar í Reykjavík og því er besta ráðið til að draga úr mengun að hvíla bílinn í dag. Svifryksmengun (PM10) fer yfir heilsuverndarmörk ef hún er yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring. Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) gæti einnig farið yfir klukkutíma heilsuverndarmörk í dag en mörkin eru 110 míkrógrömm á rúmmetra og skapast helst af útblæstri bifreiða.

Fólk ætti því að huga að því að taka strætó í dag, ganga og hjóla til og frá vinnu og skóla en þó ekki meðfram miklum umferðargötum. Jafnframt er mikilvægt að hafa farartæki ekki í lausagangi að óþörfu en kvartanir hafa verið að berast heilbrigðiseftirlitinu að undanförnu um lausagöngu farartækja. Þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri ættu að forðast helstu umferðargötur í dag.

Á hádegi í dag var hálftímastyrkur svifryks (PM10) við Grensásveg að meðaltali 171 míkrógrömm. míkrógrömm á rúmmetra og hálftímastyrkur köfnunarefnisdíoxíð (NO2) var 95,5 míkrógrömm á rúmmetra," að því er segir í tilkynningu.

Á heimasíðu Umhverfis- og samgöngusviðs og Reykjavíkurborgar er vefmælir sem sýnir svifryksmengun í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka