Magnús Þorsteinsson, fyrrverandi viðskiptafélagi Björgólfsfeðga í eignarhaldsfélaginu Samson, er nú sagður krafinn um tæpan milljarð króna vegna vangoldinna skatta, af skattayfirvöldum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Samkvæmt fréttinni er um að ræða ógreiddan skatt af söluhagnaði hlutabréfa í Samson árið 2005. Magnús er sagður hafa áfrýjað málinu til yfirskattanefndar og er haft eftir lögmanni hans að skattayfirvöld fari fram með offorsi. Þar að auki geri tvísköttunarsamningur við Lúxemborg það að verkum að réttur til skattlagningar liggi ekki á Íslandi.
Enn fremur kom fram í fréttinni að enginn úrskurður eða dómur hafi fallið um það hvort skattlagning af þessu tagi standist lög. Málið sé því fordæmisgefandi.