Viðskiptaráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að afstaða ríkisstjórnarinnar varðandi innstæður útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu hafi ekki breyst síðan í nóvember 2008.
Yfirlýsingin sem svohljóðandi:„Afstaða ríkisstjórnarinnar varðandi innstæður útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu hefur ekki breyst síðan í nóvember 2008 þegar Ísland og Evrópusambandið og nokkur aðildarríki þess komust að sameiginlegum viðmiðum um lausn á málefnum innstæðueigenda útibúa Landsbankans í Bretlandi og Hollandi (Icesave) og Kaupþings í Þýskalandi (Edge).
Á grundvelli þessa samþykkti Alþingi þingsályktun um að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna þessa máls. Samningaviðræður standa yfir og mun þeim vonandi ljúka fljótlega.“
Málið varðar ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem birtust í Financial Times Deutschland. Þar er haft eftir forsetanum að hann hafni því að þýskum sparifjáreigendum verði bætt tap, sem þeir hafa orðið fyrir vegna innlagna á Edge-reikninga Kaupþings í Þýskalandi.
Ólafur Ragnar hefur sagt að ummælin hafi verið slitin úr samhengi.