Orð forsetans fréttamatur í Þýskalandi

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Gímsson, forseti Íslands, komst á forsíður nánast allra vefmiðla í Þýskalandi með yfirlýsingum sínum í viðtali við Financial Times Deutschland í gær um að hann hafnaði því að þýskum sparifjáreigendum yrði bætt tap sitt vegna gjaldþrots Kaupþings.

„Skýr boð frá Íslandi: Um þrjátíu þúsund manns, sem áttu sparifé í Kaupþingi, munu ekki fá neinar bætur," sagði í dagblaðinu Die Welt. „Forsetinn sagði að það væri ekki hægt að leggja það á Íslendinga að standa skil á tapinu. Ástæðan: Fólkið hefði sjálft tapað öllu."

Með ummælum sínum hefur Ólafur Ragnar vakið rækilega athygli og allt frá Bild til Frankfurter Allgemeine Zeitung lögðu út af orðum hans.

„Engar bætur fyrir þýska viðskiptavini þrotabankans," sagði á forsíðu vefmiðils Bild Zeitung, stærsta dagblaðs Evrópu. „Engir peningar fyrir sparifjáreigendur hjá Kaupþingi eftir allt!" hefst frétt blaðsins og er upphrópunarmerki skeytt við til áherslu. „Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, leggst með krafti gegn bótum fyrir þýska sparifjáreigendur ..."

Í fyrirsögn Frankfurter Allgemeine Zeitung er ekki kveðið jafn fast að orði: „Forseti Íslands veldur sparifjáreigendum hjá Kaupþingi óvissu." Í upphafi fréttarinnar segir að enn hafi skapast „ringulreið" í umræðunni um bætur fyrir Þjóðverja, sem treystu Kaupþingi fyrir sparifé sínu, nú hafi forseti Íslands lagst gegn því að bætur yrðu greiddar.

Í fyrirsögn á vefmiðli vikuritsins Die Zeit segir að við þýskum sparifjáreigendum hjá Kaupþingi „blasi algert tap" og í fyrirsögn Der Spiegel stendur: „Forseti leggst gegn skaðabótum til þýskra fórnarlamba".

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert