Fréttaskýring: Seðlabankastjórar telja að sér vegið

Bankastjórn Seðlabanka Íslands. f.v. Ingimundur Friðriksson, sem baðst lausnar um …
Bankastjórn Seðlabanka Íslands. f.v. Ingimundur Friðriksson, sem baðst lausnar um helgina, Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra deilir nú harðlega við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabanka Íslands, vegna fyrirhugaðra breytinga á lögum um Seðlabankann. Jóhanna óskaði eftir því að seðlabankastjórarnir þrír, Ingimundur Friðriksson, Eiríkur Guðnason og Davíð Oddsson, hættu störfum. Ingimundur ætlar að hætta en hinir ætla ekki að verða við beiðni Jóhönnu. Ingimundur segir í bréfi sem hann sendi Jóhönnu að hann telji vegið að starfsheiðri sínum.

Í bréfi sem Jóhanna sendi stjórnarmönnum Seðlabankans sagði hún beiðni sína um að þeir vikju úr stjórninni byggjast á því að nauðsynlegt væri að byggja upp trúverðugleika á Seðlabankanum og íslensku efnahagslífi.

Fara með nýjum lögum

Líklegt verður að teljast að lyktir þessarar deilu verði þær að stjórn Seðlabankans hætti störfum og nýr bankastjóri verði skipaður á grunni nýrra laga sem bíða þess að verða samþykkt á Alþingi. Frumvarpið sem viðskiptanefnd á eftir að fjalla um gerir ráð fyrir að einn seðlabankastjóri verði skipaður til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. Sá sem gegnir stöðu seðlabankastjóra verður að vera með meistarapróf í hagfræði samkvæmt frumvarpinu.

Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá Bandalagi háskólamanna, segir embættismenn, eins og þá sem eru í stjórn Seðlabankans, hafa rík réttindi sem stjórnvöldum beri að virða. Hins vegar geti lagabreytingar breytt miklu. „Ef störfin eru lögð niður þá eiga embættismenn biðlaunarétt, samkvæmt lögum frá 1996. Við höfum fundið töluvert fyrir því að undanförnu að ríkisstarfsmenn eru að kanna réttarstöðu sína gagnvart því ef störf þeirra eru lögð niður,“ segir Erna. Biðlaun embættismanna geta verið til allt að tólf mánaða eftir að störfin eru lögð niður, að sögn Ernu.

„Það er heldur ekki óeðlilegt að ríkisstarfsmenn skoði stöðu sína í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í þjóðfélaginu, sem fylgir mikill niðurskurður hjá hinu opinbera. Þá eykur óróinn í stjórnmálalífi landsins eflaust óöryggi hjá mörgum opinberum starfsmönnum.“

Álitamál getur verið á hvaða forsendum lagabreytingarnar eru gerðar og þá hvort réttlætanlegt sé að skipta út embættismönnum á grundvelli þeirra. Ljóst er þó að réttur stjórnvalda til þess að skipta út starfsfólki hjá æðstu stofnunum ríkisins er ótvíræður ef skilyrði lögum samkvæmt eru uppfyllt. Tilgangurinn með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, að tillögu forsætisráðherra nú, er sagður sá að efla traust á bankanum og aðgerðum hans og ekki síður á íslensku efnahagslífi í heild. Á þeim forsendum hvílir mikilvægi lagabreytinganna að mati ríkisstjórnarinnar sem þegar hefur afgreitt frumvarpið.

Bréfin ganga enn á milli

Jóhanna sendi Ingimundi Friðrikssyni og Eiríki Guðnasyni bréf í gær, þar sem hún ítrekaði að þeir hefðu ekkert sér til saka unnið og væru hæfir til þess að sinna sínum störfum. Engar fréttir bárust af frekari bréfasendingum til Davíðs.

Samþykkti Jóhanna breytingar á lögunum 2001?

Jóhanna Sigurðardóttir kom að breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands árið 2001 og samþykkti þær breytingar sem þá voru gerðar. Þær áttu fyrst og fremst að miða að því að auka sjálfstæði Seðlabankans.

Gagnrýndi fyrri lög

Jóhanna gagnrýndi hvernig lögin voru áður en þeim var breytt og sagði ráðherra þá vera í stöðu til að ráðskast með Seðlabankann. Meðal annars á grundvelli þess að hægt var að ráða þá í stuttan tíma. Hún sagði á vefsíðu sinni af þessu tilefni: „Þetta getur varla þýtt annað á mæltu máli en að ef bankastjórinn fer ekki í einu og öllu að því sem forsætisráðherra segir þá eigi hann það á hættu að vera látinn fjúka. Eðlilegri stjórnsýsluhættir væri að bankaráðið réði sjálft einn bankastjóra sem ábyrgð bæri gagnvart bankaráði, sem gæti þá látið hann fara ef hann væri ekki starfinu vaxinn, frekar en að hann sé háður duttlungum og geðþóttaákvörðun ráðherra á hverjum tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert