Svakalegt að fá þetta í andlitið núna

Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings.
Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur allt gjörsamlega verið á floti hjá okkur í morgun af þýskum fjölmiðlamönnum,“ segir Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, um ummæli forseta Íslands um Kaupþing Edge-reikninga í Þýskalandi.

Steinar bendir á að á fimmtudaginn var hafi verið stór fundur með kröfuhöfum þar sem fram kom að allar innstæður vegna Edge-reikninga yrðu greiddar, þar sem þær eru forgangskröfur. „Við ætlum að greiða þetta út, en við þurfum að bíða aðeins vegna smáhluta sem er fastur í DZ bank, það eru eignir sem voru frystar. Þýsku fjölmiðlamennirnir skilja ekkert í þessu,“ segir Steinar.

Hann upplýsir að meðal þess sem þýska pressan spyr um sé hvort forseti Íslands hafi heimild til að lýsa þessu yfir. „Þetta er náttúrlega alrangt. Það hefur alltaf legið fyrir að ekkert falli á  íslenskan almenning út af þessu. Kaupþing er að klára þetta sjálft,“ segir Steinar.

Hann hefur haft samband við forsetaembættið og leiðrétt málið og á von á viðbrögðum þaðan fljótlega. Steinar býst ekki við öðru en forsetinn leiðrétti orð sín við þýska fjölmiðla. „Það er alveg svakalegt að fá þetta í andlitið núna,“ segir Steinar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka