Þjóðverjum verði ekki bætt tap, segir Ólafur Ragnar

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við blaðið Financial Times Deutschland í dag að hann hafni því að þýskum sparifjáreigendum verði bætt tap, sem þeir hafa orðið fyrir vegna innlagna á Edge-reikninga Kaupþings í Þýskalandi.

„Þjóðverjar verða að skilja að fólkið á Íslandi hefur tapað öllu," segir Ólafur Ragnar í frétt, sem birtist undir fyrirsögninni „Ísland hafnar þýskum sparifjáreigendum". Frétt þessi hefur þegar vakið athygli í Þýskalandi og hafa alþjóðlegar fréttastofur tekið hana upp.

Í ljósi þessa verði ekki lagt á íslenska skattgreiðendur að standa einnig skil á tapi þýskra sparifjáreigenda. Það sé „óréttlátt" að þýskir innistæðueigendur búist við því að Ísland beri „allan þunga" fjármálakreppunnar, er haft eftir forsetanum.

„Ég er hissa á kröfum vina okkar í útlöndum,“ segir hann. Alþjóðlega fjármálakreppan sé ekki bara mál Íslendinga, er haft eftir honum. Evrópska bankakerfið beri mun fremur ábyrgð og aðkallandi sé að gera umbætur á því.

Í fréttinni segir að þrjátíu þúsund þýskir sparifjáreigendur hafi verið lokkaðir til að leggja 330 milljónir evra inn á reikninga Kaupþings með háum vöxtum. Eftir bankahrunið hafi eignir bankans verið frystar og þýskir innistæðueigendur hafi án árangurs reynt að fá fé sitt til baka. Tekið er fram að orð forsetans stangist á við opinberar yfirlýsingar Kaupþings. Fulltrúar bankans hafi á fundi í Reykjavík á fimmtudag sagt að allir þýskir sparifjáreigendur fengju bætur. Hins vegar hefði valdið vonbrigðum að ekki hefði komið fram hvenær það myndi gerast. 250 þýskir sparifjáreigendur voru á fundinum, þar á meðal Karlheinz Bellmann, sem einnig kom til Íslands í nóvember til að krefjast 110 þúsund evra, sem hann lagði inn á reikninga Kaupþings.

Í frétt Financial Times Deutschland kennir Ólafur Ragnar auk evrópsks bankakerfis Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um fjármálakreppuna á Íslandi vegna þess að hann hafi beitt hryðjuverkalögum á Íslendinga. „Gordon Brown og fleiri líta hrokafullir niður á Ísland," er haft eftir Ólafi Ragnari. Ákvörðun Browns um að setja Ísland á listann yfir „hryðjuverkaríki" hafi gert „illt verra". Kaupþing hafi verið fellt með einhliða aðgerð Bretanna. Að sögn Ólafs Ragnars skuldi Brown Íslendingum skýringu á aðgerðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka