Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að ekki verði lengi hægt að búa við trúnaðarbrest stjórnvalda og Seðlabanka Íslands. Ástandið sé ómögulegt og það verði að ríkja traust milli stjórnvalda og stjórnenda fjármálastofnana.
Financial Times hefur eftir ónafngreindum heimildum að íslenskir embættismenn hafi orðið fyrir vonbrigðum með pólitískan barnaskap Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún hafi reynt að niðurlægja Davíð Oddsson. Steingrímur segir að ráðherrann hafi beint vinsamlegum tilmælum til bankastjóranna um að aðstoða við þessar skipulagsbreytingar. Hann viti því ekki við hvað sé átt.
Blaðið segir að það kunni að skaða ímynd Íslands í útlöndum ef íslensk stjórnvöld krefjast þess að skilmálum samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði breytt. Steingrímur segir enga ástæðu til þess að óttast að það rýri trúverðugleika Íslands hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum þótt íslensk stjórnvöld haldi á lofti sínum málstað í samskiptum við sjóðinn.
Greinin í Financial Times er meðal annars höfð eftir ónafngreindum íslenskum embættismönnum en hart hefur verið deilt á núverandi stjórnvöld fyrir að vilja breyta valdahlutföllum í embættismannakerfinu sem séu hliðholl Sjálfstæðismönnum eftir langa valdatíð. Ráðherrann var spurður hvort þessi ágreiningur kristallaðist í þeim heimildum meðal íslenskra embættismanna sem blaðið vitnar í. Hann svaraði því til að hann vissi ekki í hvaða heimildarmenn væri verið að visa en það væri talsverður draugagangur í ákveðnum herbúðum. Greinilega væri erfitt að missa völdin eftir átján ár og þess sæi stað á ýmsan hátt.