Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að stofnuð verði velferðarvakt í samvinnu ríkis, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila til að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur og gera tillögur um viðbrögð.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, mun skipa hóp til að stýra verkefninu, samhæfa upplýsingaöflun og gera tillögur um viðbrögð.
Segir á vef stjórnarráðsins að efnahagsþrengingar þjóðarinnar með vaxandi atvinnuleysi og fjárhagserfiðleikum einstaklinga og fjölskyldna geta haft ýmsar félagslegar afleiðingar á borð við félagslega einangrun, andlega vanlíðan, versnandi heilsufar og aukna hættu á misnotkun áfengis og vímuefna. Þá hafa erlendar rannsóknir á afleiðingum efnahagsþrenginga sýnt hættu á auknu heimilisofbeldi og vanrækslu á börnum.
Hlutverk velferðarvaktarinnar verður meðal annars að afla upplýsinga um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur, afla upplýsinga um reynslu annarra þjóða af efnahagsþrengingum, kortleggja hvaða leiðir ríki, sveitarfélög og félagasamtök hafa til að bregðast við vandanum og efna til samráðs með fulltrúum opinberra stofnana, félagasamtaka og öðrum sem lagt geta af mörkum vegna þekkingar sinnar og reynslu. Á grundvelli þessa skal velferðarvaktin gera tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna og samhæfa þær.
Velferðarvaktin verður skipuð fulltrúum frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Biskupsstofu og Rauða krossi Íslands.
Staða kynjanna rannsökuð
Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt á fundi sínum í morgun að settur verði á fót vinnuhópur til að meta áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna. Hópurinn verður skipaður af Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.
Helstu verkefni hópsins verða að safna upplýsingum um áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna þar sem ætla má að áhrifin séu ekki þau sömu á konur og karla. Einnig að meta áætlanir ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka um viðbrögð við efnahagsástandinu og hvaða áhrif þær kunna að hafa á stöðu kynjanna. Þá verður hópnum falið að afla upplýsinga um þessi efni út frá reynslu annarra þjóða sem lent hafa í efnahagsþrengingum. Loks verður það hlutverk hópsins að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við skipulagningu aðgerða og áætlana um viðbrögð við afleiðingum efnahagsástandsins.
Ráðgert er að vinnuhópurinn hefji störf um miðjan febrúar og mun formaður gera ráðherra reglulega grein fyrir stöðu verkefnisins. Áfangaskýrsla hópsins verður kynnt í ríkisstjórn um miðjan mars og verður þá metið hvernig til hefur tekist og teknar ákvarðanir um framhald starfsins.
Í vinnuhópinn verða skipaðir fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu.