„Þetta er nú sett í annað samhengi og gefin önnur merking en var í okkar samtali,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, spurður út í viðtal sem hann átti við blaðamann Financial Times Deutschland. Þar er haft eftir Ólafi að hann hafni því að þýskum sparifjáreigendum verði bætt tap, sem þeir hafa orðið fyrir vegna innlagna á Edge-reikninga Kaupþings í Þýskalandi.
Ólafur Ragnar segist hafa átt um klukkustundar langt spjall með blaðamanninum þar sem hann útskýrði fyrir honum stöðu íslensku þjóðarinnar.
„Í þessu samtali var tvennt. Annars vegar að það væri útbreiddur misskilningur víða í Evrópu, að á sama tíma og erlendir sparifjáreigendur væru í vandræðum vegna viðskipta við íslenska banka þá væri íslenskur almenningur með allt sitt á hreinu. Þvert á móti þá væru hér þúsundir einstaklinga, fjölskyldur og ellilífeyrisþegar sem hefðu tapað verulegum fjármunum. Það væri mikilvægt að vinir okkar í Þýskalandi og annars staðar hefðu skilning á því,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
„Það væri þess vegna ekki sanngjarnt í augum margra á Íslandi að telja að á sama tíma og útlendingar ættu að fá allt sitt, þá myndu Íslendingar einir og sér bíða gríðarlegt tjón,“ segir Ólafur Ragnar.
„Hitt atriðið sem ég fjallaði um var að það hefði komið í ljós ákveðinn misbrestur í regluverki Evrópusambandsins um bankastarfsemi, sem hefði falið það í sér að um leið og bönkum væri heimilt að starfa hvar sem væri í Evrópu þá væru eftirlitsstofnanirnar bundnar við einstök lönd og einstök svæði,“ segir Ólafur Ragnar.
„Ég hef mjög fundið fyrir því að það hefur verið áberandi skilningur víða um Evrópu að við ætluðum að hafa allt okkar á hreinu, og enginn á Íslandi væri að tapa á bönkunum. Það væru bara útlendingar sem ættu að tapa.“
Ræðir við þýska fjölmiðla
Spurður út í viðbrögð við fréttinni, bæði hérlendis og á erlendri grundu, segir Ólafur Ragnar: „Þýskir fjölmiðlar hafa haft samband við skrifstofuna og ég mun auðvitað tala við þá,“ segir hann.
Mikilvægt sé að koma því skýrt á framfæri að Íslendingar standi og hafi jafnan staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Unnið sé hörðum höndum að því á vegum skilanefnda og ríkisstjórnarinnar að ljúka þessum málum sem hraðast. „Á það benti ég blaðamanninum þó hann víki hvergi að því í þessari frásögn. Ég benti honum m.a. á að það hefði fengist niðurstaða í Noregi, Finnlandi og Austurríki þar sem allar innistæður Kaupþings hefðu verið greiddar,“ segir Ólafur Ragnar.
Íslendingar hefðu ríkan vilja til þess að gera sitt besta í þessum efnum. „En menn yrðu hins vegar að átta sig á því að aðstæður þjóðarinnar og almennings á Íslandi væru mjög erfiðar því hér hefðu þúsundir af fólki misst gríðarlega mikið af fjármunum. Því yrðu menn að hafa fullan skilning á,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson að lokum.