95 milljóna gjaldeyristekjur af hval

Morgunblaðið/Ómar

Gjaldeyristekjur af útflutningi á hvalaafurðum voru rúmar 95 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt svari sjávarútvegsráðherra á Alþingi í dag. Þingmaður Samfylkingar sagðist hafa upplýsingar um að kostnaður við að flytja langreyðakjöt með flugfrakt til Japans hafi numið 112 milljónum króna.

Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, spurði Steingrím J. Sigfússon hverjar gjaldeyristekjur hefðu verið af hvalveiðum á síðasta ári. Steingrímur vísaði í upplýsingar frá Hagstofu Íslands þar sem fram kom að verðmæti útfluttra hvalaafurða námu samtals 95.149.140 krónur á síðasta ári.

Árið 2008 voru flutt út 909 kíló af hrefnukjöti til Færeyja að verðmæti  722.927 krónur. Þá flutt út  81.774 kíló af frystu langreyðakjöti til Japans að verðmæti 94.038.488 krónur. Loks voru flutt út 90 kíló af hvallýsi til Noregs að verðmæti 387.725 króna. Tölurnar taka mið af flutningskostnaði og gengi á þeim tíma sem útflutningurinn átti sér stað.

Mörður sagði, að samkvæmt upplýsingum og útreikningum alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna IFAW hefði flutningskostnaður með flugi yfir Norðurpólinn numið jafnvirði 112 milljóna króna. Því hefði flutningurinn  kostað meira en  næmi öllum sölutekjunum á Japansmarkaði. Spurði Mörður hvernig það mætti vera, að  2-300 störf skapist af atvinnuvegi, sem væri svona kostnaðarsamur.

Steingrímur sagði, að þess væri að vænta að þegar niðurstaða fengist í skoðun sjávarútvegsráðuneytins á ákvörðun um hvalveiðar yrði reitt fram ýtarlegt talnaefni, svo sem um kostnað, sem væri samfara veiðunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert