Það gengur vel að selja fasteignir í Vestmannaeyjum um þessar mundir. Að sögn Guðjóns Hjörleifssonar, eiganda fasteignar- og skipasölunnar Heimaeyjar, hafa 16 fasteignir verið seldir frá því um áramót. Fjórtán í Eyjum og tvær í Reykjavík. „Ég sé fram á gott ár,“ segir Guðjón.
Alls hefur Guðjón selt sex einbýlishús í Eyjum og eitt verslunarhúsnæði. Þá segir hann að þrjár íbúðir hafi t.d. verið seldar í einum og sama stigaganginum í fjölbýlishúsi. Fólk sé greinilega í fasteignahugleiðingum. „Það er gott hljóð í Eyjamönnum.“
Hann segir hins vegar að það vanti hreyfingu á fasteignamarkaðinn í Reykjavík til að fá fleiri til Eyja. Hann segist vita af fimm eða sex sem vilji selja húsnæðið sitt í höfuðborginni og kaupa einbýlishús í Vestmannaeyjum.
„Það er mikill uppgangur og hérna er engin kreppa,“ segir Guðjón. Fyrirtækin í Eyjum séu öflug og tekjur almennt góðar.
Allt tal um kreppu sé því einfaldlega bannað. „Ef einhverjum dettur í
hug að ræða það þá er hann bara sendur út til að kæla sig og beðinn um að koma aftur þegar hann hressist.“
Spurður út í það hvernig fólki gangi að fá lán til íbúðarkaupa segir
Guðjón: „Mér finnst Íbúðalánasjóður standa sig rosalega vel í öllum
samskiptum, og það er fínn hraði á þessu.“
Hann segir að nýverið hafi átta tilboð verið samþykkt á einum og sama deginum. Það sé mjög ólíkt því sem hafi verið í janúar og febrúar í fyrra þegar hann seldi aðeins fjórar íbúðir. „Þetta er alveg ótrúlega gott,“ segir Guðjón.