Dalai Lama, hinn aldni friðarverðlaunahafi Nóbels 1989 og útlægur leiðtogi sex milljóna Tíbeta, hefur lengi verið ótrauður baráttumaður fyrir friði og réttindum þjóðar sinnar á ferðalögum um heiminn. Nú hefur hann þegið boð um að heimsækja Ísland í júní. Um einkaheimsókn er að ræða. Gesturinn mun boða mannleg gildi eins og „samkennd, fyrirgefningu, umburðarlyndi, æðruleysi og sjálfsaga“, gildi sem hann segir alla geta samþykkt, einnig trúleysingja.
En stjórnvöld í Peking munu vafalaust mótmæla: Þau segja Dalai Lama vera hættulegan uppreisnarmann sem vilji kljúfa Kína.
Hann er fæddur í Tíbet 1935, tveim árum síðar var gert kunnugt að hann væri hinn útvaldi, næsti Dalai Lama. Fyrirrennari hans hefði endurholdgast í drengnum. Hann var nú fluttur í Potala-höllina miklu í Lhasa til að fá þar uppeldi sem hæfði hlutverki hans.
Forvitni um heiminn er einn af þeim eiginleikum sem ávallt hafa einkennt Tenzin Gyatso, eins og hann var nefndur í æsku. Tíbet var eitt einangraðasta land heims, nær allir voru bláfátækir og samskiptin við umheiminn sáralítil.
Hann var því ljónheppinn þegar austurrískur fjallgöngumaður, Heinrich Harrer, hrökklaðist til Tíbets eftir að hafa flúið úr bresku fangelsi í Indlandi í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Hann varð þar innlyksa í sjö ár og hinn ungi Dalai Lama fræddist um margt vestrænt af samtölum við garpinn. Gerð var fræg kvikmynd um samskipti þeirra og lék Brad Pitt Austurríkismanninn.
Dalai Lama flúði land með ævintýralegum hætti og er nú dáður trúarleiðtogi og hugsuður, hefur ritað mikið um frið og heimspeki þeirra sem forðast vilja allt ofbeldi. Athyglisvert er að hann hefur stöðugt reynt að milda hug Kínverja til sín. Á síðari árum hefur hann teygt sig svo langt að segja að Tíbetar verði að sætta sig við að vera borgarar í Kína en þeir eigi að krefjast sjálfstæðis í eigin málum.
Ekki hefur þetta dugað ráðamönnum í Peking. Sumir fullyrða að Kínverjar dragi af ásettu ráði að semja við Dalai Lama. Þeir bíði þess eins að hann deyi, þá verði Tíbetar forystulausir. En til vonar og vara sögðu þeir fyrir tveim árum að háttsettir munkar yrðu að hljóta samþykki stjórnvalda í Peking en munkarnir velja eftirmann Dalai Lama.
Leiðtoginn hefur staðið fyrir margvíslegum umbótum sem miða að því að laga stjórnhætti að nútímanum en þjóðskipulag í Tíbet minnti mjög á lénsskipulag í Evrópu á miðöldum. Og ljóst er af ýmsum ummælum hans að Dalai Lama er ekki sannfærður um að embætti hans muni lifa eftir hans dag.
„Ég hef ávallt litið á sjálfan mig einfaldlega sem búddamunk,“ segir hann á heimasíðu sinni og bætir við að veraldlegt embætti hans sé ekki annað en mannanna verk.
Goðsögn í útlegð
Hans heilagleiki Dalai Lama er æðsti munkur eða lama tíbeska búddismans og var einnig veraldlegur stjórnandi Tíbets þar til kínverskir kommúnistar lögðu landið undir sig 1950. Dalai Lama og stuðningsmenn hans gerðu misheppnaða uppreisn gegn Kínverjum 1959. Flýði hann í kjölfarið yfir Himalajafjöllin til Indlands þar sem útlagastjórn hans hefur nú aðsetur í borginni Dharamsala. Tíbet er nú kínversk nýlenda.Núverandi Dalai Lama (Kennari hinnar dýpstu visku) er sá 14. í röðinni en embættið byggist á hefðum sem eiga rætur að rekja til loka 14. aldar. Upprunalegt nafn hans var Tenzin Gyatso og völdu munkar og ráðherrar hann í embættið eftir að beitt hafði verið flóknum reikniaðferðum og stjörnuspeki við að finna dreng sem talinn var fyrrverandi Dalai Lama endurholdgaður. Tekið getur nokkur ár að finna arftaka. Núverandi handhafi embættisins hefur sagt að Tíbetar eigi að ákveða með lýðræðislegum hætti hvort það verði áfram við lýði.