Risastórar holur á hafsbotni Drekasvæðisins norðan Íslands fundust sumarið 2008 þegar svæðið var kannað og kortlagt með fjölgeisladýptarmælingum. Holurnar þykja afar áhugaverðar og veita vísbendingar um að olíu og gas geti þar verið að finna. Í leiðangri Hafrannsóknarstofnunarinnar um svæðið voru kortlagðir um 10 þúsund ferkílómetrar, eitt stærsta svæðið sem kortlagt hefur verið með samfelldum mælingum í íslenskri lögsögu.
Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur hjá Hafró mun fjalla um þetta í fyrirlestri sínum, Horft yfir hafsbotninn, næstkomandi föstudag. Í frétt á vef stofnunarinnar segir að fjölgeislamælingar hafi í hartnær áratug aukið verulega við þekkingu Íslendinga á landgrunni sínu. Nákvæm botnkort og upplýsingar um botngerð geta þannig varpað ljósi á hugsanlegar auðlindir á hafsbotni (Drekasvæðið), styrkt stöðu Íslands í alþjóðlegum samskiptum (Hatton-Rockall svæðið þar sem deilt er m.a. við Breta um yfirráð yfir hafsbotninum suðaustur af Íslandi) og nýst í ýmsum verkefnum Hafrannsóknastofnunarinnar sjálfrar, meðal annars við rannsóknir á friðuðum veiðisvæðum, mikilvægum veiðislóðum eða á búsvæðum kóralla.
Fyrirlesturinn flytur Guðrún að Skúlagötu 4, fyrstu hæð, á föstudaginn klukkan 12:30.