„Ég felldi tár af því að þetta minnti mig á hversu illa mér leið á þessu tímabili,“ segir hin 16 ára gamla Kristín Rán Júlíusdóttir. Þannig lýsir hún líðan sinni þegar hún bjó sig undir málþing þar sem hún lýsti reynslu sinni af rafrænu einelti. Málþingið var haldið á vegum SAFT í tilefni af alþjóðlega netöryggisdeginum 10. febrúar. Móðir Kristínar, Guðný Kristjánsdóttir, lýsti einnig reynslu sinni af sama tilefni.
Upphaf málsins er að þegar Kristín Rán var í 7. bekk hélt hún úti bloggsíðu og inn á þá síðu voru rituð ummæli, sem ekki verða höfð eftir hér, að beiðni mæðgnanna. Kristín Rán fæddist með fötlun sem lýsir sér þannig að hún er með skerta hreyfigetu í vinstri helmingi líkamans. Hún hefur ætíð átt erfitt með að sætta sig við fötlun sína og hefur reynt að haga lífi sínu þannig að hún hamli henni á engan hátt. „Þetta var það persónulegt að fötlunin var nefnd,“ segir Kristín Rán um eðli þess eineltis sem hún varð fyrir á netinu. „Ég á ennþá erfitt með að sætta mig við að ég sé fötluð en ég er að læra að lifa með þessu,“ segir hún.
Ummælin sem færð voru inn á bloggsíðu Kristínar voru afar særandi og þó að Kristín Rán hafi nú lokið námi í 10. bekk og hafið nám í fjölbraut sárnar henni enn að tala um þetta. „Þetta var það góð vinkona mín að þegar ég komst að því hver gerði þetta átti ég ekki orð,“ segir hún.
Kristín Rán og foreldrar hennar hafa fyrirgefið stúlkunni skrif hennar og Kristín og stúlkan hafa verið samstiga í skóla alla tíð, eru núna báðar í fjölbraut. „Við erum ekki beint vinkonur í dag en ég hef mætt í afmælin hennar og hún í afmælin mín,“ segir Kristín. „Ég mun samt aldrei gleyma þessu, ég mun alltaf muna eftir því sem hún gerði. Ég er bara þannig manneskja að ég finn það í hjarta mínu að fyrirgefa,“ segir Kristín og bætir svo við að vinkonan hafi greinilega séð eftir þessu þegar upp komst og henni liðið illa.
Kristín Rán segir að reynslan hafi styrkt hana og gert hana betri. „Ég myndi aldrei leggjast svo lágt að gera nokkuð í líkingu við þetta,“ segir hún. „Ég er mjög ánægð að vera ekki svona manneskja.“
Guðný, móðir Kristínar Ránar, segir að þeim foreldrunum hafi fundist skrifin á blogginu svo ljót að þau hafi ákveðið að gera eitthvað í málinu. „Hún átti á brattann að sækja frá því hún hóf nám í grunnskóla,“ lýsir Guðný. „Þetta rafræna einelti setti í okkar huga eiginlega punktinn yfir i-ið.“ Foreldrarnir ákváðu að fá að fara inn á heimili þeirra sem hugsanlega höfðu ritað orðin til að finna ip-töluna en það tókst ekki. Guðný tekur sérstaklega fram að foreldrar bekkjarsystkina Kristínar hafi tekið þeim afar vel. Fyrst ekki tókst að finna gerandann á þennan hátt var ákveðið að leita til lögreglunnar með málið og sú tilkynning var gefin út. Það varð til þess að gerandinn gaf sig fram.
Guðný hnykkir á að þetta mál hafi farið vel og þau telji sér hafa tekist að koma í veg fyrir frekara einelti í gegnum netið með því að bregðast svona við. „Þetta bar árangur og það er það sem situr eftir. Viðbrögð okkar og dóttur okkar.“
Kristín Rán átti sitt besta ár í 10. bekk grunnskóla og núna blómstrar hún í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Við viljum segja frá þessu núna til að koma því á framfæri hvernig við brugðumst við þessu.“
.