Eiríkur hættir í júní

Eiríkur Guðnason.
Eiríkur Guðnason. mbl.is/Golli

Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, hyggst láta af störfum fyrsta júní næstkomandi. Þetta kemur fram í bréfi, sem Eiríkur hefur skrifað Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra þar sem hann svarar bréfi Jóhönnu frá 8. febrúar.

„Ég þakka fyrir það sem þér segið í framangreindu bréfi um mig. Enn­fremur fagna ég því, sem segir í bréfinu, að forsætisráðherra vilji tryggja svo sem kostur er að sem minnst röskun verði á starfsemi Seðla­banka Íslands við fyrirhugaðar stjórnskipulagsbreytingar. Í ljósi þessa stefni ég nú að því að biðjast lausnar frá embætti bankastjóra frá og með 1. júní næstkomandi og mun bréf því til staðfestingar verða sent í tæka tíð," að því er segir í bréfi Eiríks til Jóhönnu sem sent var í gær.

Jóhanna fór fram á það við seðlabankastjórana þrjá í byrjun síðustu viku, að þeir segðu af sér embætti. Ingimundur Friðriksson lýsti því yfir í svarbréfi, að hann myndi verða við tilmælum Jóhönnu.  Davíð Oddsson  lýsti því hins vegar yfir að hann myndi ekki hlaupa frá hálfkláruðu verki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert