Hæstiréttur hefur staðfest að framlengja farbann yfir fyrrverandi framkvæmdastjóra VSP til 27. febrúar nk. Þetta er í tólfta skipti sem Hæstiréttur staðfestir farbann yfir manninum. Hann hefur sætt farbanni frá 13. apríl 2007, en það er Íslandsmet. Jón Steinar Gunnlaugsson skilaði sératkvæði og vildi fella úrskurðinn úr gildi.
Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hefur sætt farbanni frá 13. apríl á síðasta ári. Hann er grunaður um stórfelld efnahagsbrot, sem felast í útgáfu tilhæfulausrar ábyrgðaryfirlýsingar upp á 200 milljónir bandaríkjadala – rúma 18 milljarða króna samkvæmt gengi gærdagsins. Talið er að ábyrgðir vegna athæfis mannsins geti fallið á þrotabú VSP.
Í dómi Hæstaréttar segir að ekki verði ráðið af ákæruvaldinu annað en að rannsókn málsins ljúki innan skamms, og verði þá tekin ákvörðun um hvort framkvæmdastjórinn fyrrverandi verði sóttur til saka.
Hæstaréttardómarinn Jón Steinar Gunnlaugsson sagðist ekki sjá að rannsókninni miði mikið áfram. „Ég tel að framgangur rannsóknarinnar á hendur varnaraðila sé með þeim hætti að ekki komi til greina að láta hann enn á ný sæta skerðingu á frelsi sínu vegna hennar,“ segir í sératkvæði hans.