„Flutningskostnaðurinn er stórlega ýktur, hann var langt í frá 112 milljónir króna. Hitt er rétt að útflutningstekjurnar á hvalaafurðum námu 95 milljónum króna á síðasta ári. Þar var hins vegar um að ræða FOB verð, það er að segja flutningskostnaður leggst ofan á og greiðist af kaupanda. Reikningsdæmið er því ekki rétt hjá þingmanni Samfylkingarinnar,“ segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingar, spurði Steingrím J. Sigfússon á Alþingi í dag, hverjar gjaldeyristekjur hefðu verið af hvalveiðum á síðasta ári. Steingrímur vísaði í upplýsingar frá Hagstofu Íslands þar sem fram kom að verðmæti útfluttra hvalaafurða námu samtals 95.149.140 krónur á síðasta ári.
Árið 2008 voru flutt út 909 kíló af hrefnukjöti til Færeyja að verðmæti 722.927 krónur. Þá voru flutt út 81.774 kíló af frystu langreyðakjöti til Japans að verðmæti 94.038.488 krónur. Loks voru flutt út 90 kíló af hvallýsi til Noregs að verðmæti 387.725 króna. Tölurnar taka mið af gengi á þeim tíma sem útflutningurinn átti sér stað.
Mörður sagði, að samkvæmt upplýsingum og útreikningum alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna IFAW hefði flutningskostnaður með flugi yfir Norðurpólinn numið jafnvirði 112 milljóna króna. Því hefði flutningurinn kostað meira en næmi öllum sölutekjunum á Japansmarkaði.
Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks rangt og þar með allan útreikning þingmanns Samfylkingarinnar.