Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag að Landsbankinn, stærsti banki landsins, sé nú stjórnlaus og það séu hinir bankarnir tveir raunar einnig. Vísaði hann til ýmissa atriða, þar á meðal að bankastjóri Landsbankans sé að hætta og formaður bankaráðsins, sem eigi að taka við bankastjórastarfinu um næstu mánaðamót, sé í leyfi á Indlandi.
Spurði Ármann hvort það væri ríkisstjórnarflokkunum samboðið, að ýta Elínu Sigfúsdóttur úr starfi bankastjóra Landsbankans. Þá vísaði hann til þess, að formenn bankaráða Glitnis og Kaupþings hefðu í gær sagt af sér. Alltaf væri verið að skipta um hest í miðri á. Bankakerfið yrði ekki byggt upp með því að hræra stöðugt í stjórnendum bankanna.
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingar, sagðist ekki muna betur en bankastjórastaða í Landsbankanum hefði verið auglýst í tíð fyrri ríkisstjórnar.
Lúðvík sagðist ekki vita til þess að bankarnir væru stjórnlausir. Sagðist hann ekki telja umræðu af þessu tagi vera til þess fallna að byggja upp banka- og fjármálakerfið.
Jón Magnússon, þingmaður utan flokka, sagðist telja óviðeigandi hvernig ráðamenn, bæði ríkisstjórn og forseti lýðveldisins hefðu tjáð sig bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi að undanförnu.