Með kalbletti á kinnunum

Sigurjón og Þóra Hrönn við sleðana sem báru þau um …
Sigurjón og Þóra Hrönn við sleðana sem báru þau um óbyggðir Alaska. Mynd/Sigurjón Pétursson

Þóra Hrönn Njálsdóttir, sem hætti keppni í Iron Dog vélsleðakeppninni í Alaska í dag, segir það gríðarleg vonbrigði. Hún hafi alls ekki verið komin með nóg, þrátt fyrir að hafa verið á stöðugri ferð í fjóra daga.

Kuldinn í ferðinni var gríðarlegur, 60 gráður í mínus, eitthvað sem Íslendingar þekkja ekki einu sinni úr frystikistunum sínum. „Snjórinn er eins og púður. Þetta er eins og skel yfir jörðinni og ef maður fer örlítið út af slóðinni er maður strax lentur ofan í holu,“ segir Þóra Hrönn.

Aðspurð segir hún að fatnaðurinn hafi gefist mjög vel í kuldanum, sem var allt að 92 gráðu frost með vindkælingu. Það hafi ekki verið vandamál, sér hafi verið hlýtt allan tímann. Hins vegar hafi hlífðargleraugun hennar hélað að innan sem utan og mikill vandi verið að sjá út um þau. Þegar hún átti 10 mílur eftir af einni dagleiðinni í byrjun vikunnar var svo komið að hún sá varla neitt með gleraugun á sér. „Svo ég skellti þeim niður og kíkti yfir þau og keyrði síðustu 10 mílurnar þannig. Þótt ég væri búin að teipa á mér kinnarnar fékk ég kalbletti í þær á þessum síðustu 10 mílum,“ segir hún. Ekki mátti því taka af sér hlífðarbúnaðinn lengi til að fara illa. Kalið er þó ekki alvarlegt, meira eins og vægt brunasár að sögn Þóru Hrannar.

Sleðarnir áttu líka í mestu erfiðleikum með frostið. Stýrisbúnaður lét illa að stjórn auk þess sem demparar láku.

Þóra Hrönn segir að hún og eiginmaður hennar, Sigurjón Pétursson, hafi hitt mann í Wasilla sem hafði þurft að leita læknis vegna slæms kals á fæti, auk þess sem einn keppandi hafði úlnliðsbrotið sig. Að öðru leyti var ekki mikið af alvarlegum meiðslum, jafnvel þó ökumenn hafi margir lent í árekstrum við tré á leiðinni inni í þéttum skógum Alaska.

„Ég get viðurkennt að tárin trilluðu niður kinnarnar þegar ég fór í loftið í gær. Ég hafði verið með miklar væntingar og var í raun komin í gegnum erfiðasta hlutann. Mitt vandamál er að ég keyri ekki nógu hratt,“ segir hún. Hún hætti því keppni fyrr en Sigurjón og vinir þeirra, bræðurnir Will og Wally, til þess að hægja ekki á þeim. Þeir þurftu engu að síður að hætta keppni í dag, sem voru mikil vonbrigði. „Þessir strákar sem eru hérna að keppa. Það eru miklar tilfinningar í spilinu hjá þeim og mikið umstang. Við höfum horft á þá þegar þeir koma inn til þess að taka bensín. Þá eru þeir svoleiðis ofvirkir við þetta. Þeir renna inn, dæla á tankinn og skipta um varahluti og svo eru þeir bara farnir.“ Hún líkir þessu við viðgerðarhlé í formúlu eitt kappakstrinum.

Iron Dog keppnin er mikill viðburður í fámennum bæjum Alaska, sem hún liggur í gegnum. Fólkið þar leggur því mikið upp úr því að veita þjónustu og gistingu. Þóra Hrönn segir að þau hafi meðal annars gist í heimahúsum hjá fólki og borgað fyrir alla þjónustu þar, borðað morgunmatinn í stofunni hjá þeim.

„Það er svo magnað að taka þátt í þessu,“ segir hún og auðheyrt er að hún er ekki vonsvikin með keppnina sjálfa, þótt árangurinn hefði mátt vera betri. Náttúrufegurðin sé ótrúleg, þótt hún játi að í svona keppni gefist ekki mikill tími til náttúruskoðunar. „Ég varð alltaf mjög glöð þegar Sigurjón stoppaði og tók upp myndavélina.“ Hún sér alls ekki eftir þátttökunni en mælir heldur ekki með þessu fyrir hvern sem er. „Þú þarft að taka þessu mjög alvarlega, vera í mjög góðu formi og þarft að geta hjálpað til þegar sleðarnir fara á kaf og festast.“

För þeirra hjóna er nú heitið til Anchorage frá bænum Fairbanks eftir að Sigurjón hittir konu sína þar á ný. Þaðan ætla þau svo að fljúga til San Francisco áður en hringnum verður lokað með flugi heim til Íslands.

F.v.: John Scudder, fyrrverandi forseti vélsleðafélags Anchorage, Þóra Hrönn Njálsdóttir …
F.v.: John Scudder, fyrrverandi forseti vélsleðafélags Anchorage, Þóra Hrönn Njálsdóttir og Todd Palin, eiginmaður Sarah Palin ríkisstjóra. Todd hefur unnið keppnina fjórum sinnum. Mynd/Sigurjón Pétursson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert