Mesta atvinnuleysi í 14 ár

Atvinnuleysi vex dag frá degi á Íslandi
Atvinnuleysi vex dag frá degi á Íslandi Reuters

Skráð atvinnuleysi í janúar 2009 var 6,6% eða að meðaltali 10.456 manns og eykst atvinnuleysi um 32% að meðaltali frá desember eða um 2.554 manns. Atvinnuleysi hefur ekki verið jafn mikið frá því í janúar árið 1995 en þá var atvinnuleysi 6,8%. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1%, eða 1.545 manns. 

Atvinnuleysið mælist 11,6% á Suðurnesjum

Atvinnuleysi er nú mest á Suðurnesjum 11,6% en minnst á Vestfjörðum 1,6%. Atvinnuleysi eykst um 34% á höfuðborgarsvæðinu og um 30% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi eykst um 32% bæði meðal karla og kvenna. Atvinnuleysið er 7,5% meðal karla og 5,4% meðal kvenna.

Þeir sem verið hafa á skrá lengur en 6 mánuði voru 1.023 í lok janúar en 700 í lok desember. Alls höfðu 273 verið atvinnulausir lengur en eitt ár í janúar en 255 í lok desember. Þegar atvinnuleysi eykst eins mikið og nú er mesta aukningin meðal þeirra sem hafa verið atvinnulausir í nokkrar vikur og mánuði (skammtímaatvinnuleysi).

23% atvinnulausra á aldrinum 16-24 ára

Í janúar hefur atvinnuleysi ungs fólks aukist svipað hratt og meðal þeirra eldri en jókst hraðar meðal þeirra yngstu fram til áramóta. Frá lokum desember hefur 16-24 ára atvinnulausum fjölgað úr 2.069 í 2.837 í lok janúar og eru þeir um 23% allra atvinnulausra í janúar eða svipað hlutfall og í desember.

Rúmlega 1.600 útlendingar á atvinnuleysisskrá

Alls voru 1.655 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok janúar, þar af 1.075 Pólverjar eða um 65% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok janúar. Langflestir þeirra voru starfandi í byggingariðnaði eða 690 (tæplega 42% allra erlendra ríkisborgara á skrá). Aðrar fjölmennar greinar eru m.a. ýmis þjónustustarfsemi.

17,2% atvinnulausra í hlutastörfum

Samtals voru 2.136 af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok janúar í hlutastörfum, þ.e. þeir sem eru í reglubundnum hlutastörfum eða með tilfallandi eða tímabundið starf á síðasta skráningardegi í janúar. Þetta eru um 17,2% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir í lok janúar.
Einstaklingum sem fá greiddar hlutabætur hefur fjölgað eftir að samþykkt voru lög um hlutabætur á móti minnkuðu starfshlutfalli um miðjan nóvember. Af þeim 2.136 sem voru í hlutastörfum í lok janúar eru 1.279 einstaklingar sem sóttu um atvinnuleysisbætur skv. áður nefndum lögum, en þeir voru 668 í lok desember og 210 í lok nóvember.
Í janúar voru 586 sjálfstætt starfandi skráðir á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri skv. áður nefndum lögum. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt, voru 264 í lok desember og 7 í lok nóvember.

Spá 7,9-8,4% atvinnuleysi í febrúar

Í skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í janúar kemur fram að oft er frekar lítil breyting á atvinnuleysi frá janúar til febrúarmánaða. Í fyrra var atvinnuleysið svipað í báðum mánuðum og var þá 1%. Nú er hins vegar mun meiri samdráttur í hagkerfinu og má gera ráð fyrir verulegri aukningu milli mánaða.

Atvinnulausum í lok janúar fjölgaði frá lokum desember um 3.425 en um 10.651 frá sama tíma árið 2008.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í mörgum atvinnugreinum einkum verslun, mannvirkjagerð og þjónustugreinum á næstu mánuðum, auk þess sem mörg minni fyrirtæki eiga við mikinn fjárhagsvanda að stríða m.a. vegna mikils fjármagnskostnaðar og erfiðleika við öflun lánsfjár. Erfitt er að áætla atvinnuleysi um þessar mundir vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu, en líklegt er að atvinnuleysið í febrúar 2009 muni aukast verulega og verða á bilinu 7,9% ‐ 8,4%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert