Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, segir að mikilvægasta viðfangsefnið nú í peningamálum sé að ná því að gengi krónunnar verði sæmilega stöðugt og styrkist nokkuð frá því sem var þegar efnahagsáætlunin var samin.
Eiríkur segir í yfirlýsingu, sem hann hefur sent fjölmiðlum, að unnið sé að þessu í Seðlabankanum, m.a. með hóflegri sölu gjaldeyris á millibankamarkaði.
Þá sé mikilvægt að létta af þeim hömlum gjaldeyrisviðskipta sem í gildi eru en stíga þarf varlega til jarðar í þeim efnum.
Eiríkur segir, að unnið sé á mörgum vígstöðvum að því að endurreisa fjármálakerfi landsins. Afar mikilvægt sé að halda þeirri vinnu áfram og forðast allt sem tefur.
Eiríkur hefur sent Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, bréf, og tilkynnt henni að hann hyggist láta af embætti 1. júní. Jóhanna sagði við mbl.is, að það valdi henni vonbrigðum að Eiríkur verði ekki við þeim tilmælum hennar, að láta af störfum nú þegar.