Hátíðin Kærleikar verður haldin á Vetrarhátíð þann 14. febrúar næstkomandi kl. 18:00 á Austurvelli. Þema hátíðarinnar er óður til ástarinnar, samkennd, hlýja sem veitir styrk og gjöf jákvæðra tilfinninga til hvers annars. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Höfuðborgarstofu.
„Á þessari hátíð sameinumst við öll um kærleikann, kveikjum ljós í hjörtum og veitum hvort öðru styrk á þessum erfiðu tímum. Þá sameinumst við um að senda jákvæða strauma út í samfélagið.
Hátíðin hefst á Austurvelli. Þar leggja ýmsir þekktir einstaklingar fram fallega hugsun um kærleikann og það sem tengir okkur saman. Þegar því er lokið göngum við kærleiksgöngu í kringum Tjörnina ásamt frábærum hljóðfæraleikurum sem leika þekkt ástarlög. Þá sameinast kórar Reykjavíkur við Reykjavíkurtjörn og taka lagið undir stjórn Harðar Áskelssonar. Loks fleytum við kertum og sendum jákvæða strauma út í samfélagið og til þeirra sem við elskum.
Biskup Íslands, Allsherjargoðinn, Brassband Samúels og félaga, Mannréttindastofa, Unifem, AUS, Rauði krossinn, Mótettukórinn, Óperukórinn, Kór Langholtkirkju, Söngraddir Reykjavíkur, Lavateatro, Friðarhús o.fl. hafa þegar boðað komu sína.
Allir eru hvattir til að mæta niður i bæ og senda jákvæða strauma út í samfélagið. Einkennislitur hátíðarinnar er rauður og þeir sem geta eru hvattir til að koma með eitthvað rautt, til að mynda rauða húfu eða rauðan trefil,“ segir í tilkynningunni.