Spá áframhaldandi samdrætti í fjárfestingu á íbúðamarkaði

Spá hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir tæplega helmings samdrætti í fjárfestingu á íbúðamarkaði á þessu ári. Á árinu 2010 mun fjárfesting í íbúðarhúsnæði enn dragast saman um tæp 8% en aukast svo á ný á árinu 2011 um tæp 7%.

„Eftir mikinn uppgangstíma á fasteignamarkði á undanförnum árum þar sem byggt var íbúðarhúsnæði langt umfram þarfir markaðarins hefur nú orðið viðsnúningur. Viðskipti með fasteignir hafa degist verulega saman og velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu hefur minnkað um 85% frá því í ársbyrjun 2008.

Lítið virðist um beinar sölur á íbúðarhúsnæði um þessar mundir og þau viðskipti sem eiga sér stað eru að mestu makaskipti aðila á eignum. Framboð á nýju óseldu íbúðarhúsnæði er mikið og áætlað hefur verið að um 2.000 íbúðir standi auðar og óseldar á höfuðborgarsvæðinu.

Fasteignaverð skv. vísitölu íbúðaverðs hefur á síðustu 12 mánuðum lækkað um 2-3% að nafnvirði en á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 18%. Rekstur margra byggingarfyrirtækja er af þessum sökum mjög erfiður og óvissa mikil. Samkvæmt áætlun dróst fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um 32% á síðasta ári."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert