Magnús Gunnarsson, formaður bankaráðs Nýja Kaupþings og Valdur Valsson, formaður bankaráðs Nýja Glitnis, segjast í svarbréfi til fjármálaráðherra, standa við óskir sínar frá í gær um að verða leystir frá störfum í stjórnum bankanna. Fjármálaráðherra bað þá Magnús og Val að endurskoða ákvörðun sína en þeir hafna því.
Eftir að formenn bankastjórna Glitnis og Kaupþings óskuðu eftir að vera leystir frá störfum, bað Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra þá um að endurskoða ákvörðun sína og gegni störfum áfram a.m.k. fram að aðalfundum bankanna í apríl n.k.
Í svarbréfi Magnúsar og Vals til ráðherra í dag segir að það sé þeirra skoðun að það sé hag bankanna fyrir bestu að fyrirsjáanlegar breytingar á bankastjórnum verði nú þegar en bíði ekki fram til aðalfunda í aprílmánuði.
„Mikilvægt er að allri óvissu um stjórn bankanna sé eytt sem fyrst og þess vegna teljum við rétt að víkja til hliðar og skapa með því svigrúm til mannabreytinga. Við stöndum því við bréf okkar frá því í gær,“ segir í svarbréfi MAgnúsar Gunnarssonar og Vals Valssonar til fjármálaráðherra í dag.