Leifur Guðjónsson, sjómaður í Grindavík, reri ásamt félaga sínum út með 28 bala í fyrrinótt og fengu þeir tæp fjögur tonn. „Ég er mjög sáttur við aflann og skiptingin var líka fín, þorskur til helminga og svo annað. Við fengum til dæmis tonn af ýsu og 600 kg af löngu.“Leifur, sem hefur verið á sjónum í 19 ár með stuttu hléi, eða frá því að hann var 16 ára, starfar hjá Grímsnesi ehf. og rær út á Víkingi KE 10 af gerðinni Gáska 1100. Kvótinn er tekinn á leigu og veitt er á balalínu.
„Við höfum verið að fá allt frá tveimur tonnum upp í átta tonn,“ segir Leifur sem heldur út á miðin klukkan 3 til 4 að nóttu. Heim kemur hann klukkan 5 til 6. „Hluti aflans fer á markað en eigandinn tekur stærri þorskinn til sín. Hann saltar hann og gerir meiri verðmæti úr honum,“ greinir Leifur frá.