„Þetta er það allra versta sem ég hef séð í 28 ár. Það er engin spurning. Staðan er ömurleg, það er aðeins eitt orð yfir hana,“ segir Þórir Þorvarðarson, ráðningarstjóri hjá Hagvangi, sem dregur upp dökka mynd af vinnumarkaðnum.
„Ástandið síðan í haust er ekkert sambærilegt við það sem hún hefur verið síðustu þrjú til fjögur ár,“ segir Þórir, sem telur samdráttinn í fjölda auglýstra starfa nema 70-80%.
Nú séu á milli 3.000 og 4.000 skráðir í atvinnuleit hjá Hagvangi.
Gunnar Haugen, framkvæmdastjóri Capacent Ráðninga, kveðst ekki hafa á reiðum höndum hver samdrátturinn sé í prósentum.
„Það er vissulega samdráttur. Við erum ekki að auglýsa nærri því jafn mikið af störfum og við höfum gert.“
Gunnar tekur hins vegar fram að árin 2007 og 2008 hafi verið „fráviksár í eftirspurn eftir vinnuafli“.
„Ef maður miðar við það verður allt sem kemur á eftir minna, en ég hugsa að þetta sé ekkert ólíkt því sem var 2004 og 2005. Við erum að hverfa aftur til þessara ára í fjölda starfsauglýsinga,“ segir Gunnar.
Margir um hvert starf á AkureyriÞannig lögðu alls 116 umsækjendur fram umsóknir í um 20 stöður lyftuvarða, matráðs, svæðisstjóra, tækjamanns og umsjónarfólks með miðasölu, að sögn Höllu Margrétar Tryggvadóttur, starfsmannastjóra Akureyrarbæjar.
Akureyringar sýndu einnig mikinn áhuga á lausri stöðu í verslun Benetton á Glerártorgi, þar sem um 50 manns sóttu um hana.
Með líku lagi sótti hópur fólks um starf í afgreiðslu í Kristjánsbakaríi og vakti athygli á hversu breiðu aldursbili umsækjendur voru.
Hjá Heru Kristínu Óðinsdóttur, auglýsingastjóra hjá Dagskránni, fengust þær upplýsingar að innan við fimm störf hefðu verið auglýst í blaðinu frá áramótum. Greinilegt væri að slíkum auglýsingum hefði fækkað miðað við síðustu ár.