Lítil verslun á höfuðborgarsvæðinu ætlaði starfsmönnum sínum að auka vinnuframlag sitt og að þeir tækju aðeins eina fríhelgi í mánuði fyrir óbreytt laun. Starfsfólkið sneri sér til VR sem stöðvaði uppátækið.
„Við finnum að atvinnurekendur eru í auknum mæli farnir að nýta sér ástandið og færa sig upp á skaftið,“ segir Gunnar Páll Pálsson, formaður VR. Atvinnurekendur hafi skert starfshlutfall án þess að skerða vinnuframlagið. Þeir krefjist þess að starfsmenn vinni launalaust lengur.