Í janúar í fyrra bárust Hjálparstarfi kirkjunnar 159 umsóknir um neyðaraðstoð en í nýliðnum janúarmánuði voru þær 400 sem er 152% aukning. Greinilegt er að samsetning hópsins sem sækir um hefur breyst og margir eru að sækja um í fyrsta skipti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hjálparstofnun kirkjunnar.
Sumir nýrra umsækjenda eru öryrkjar sem hingað til hafa getað þraukað en ná nú ekki endum saman. Aðrir eru einstaklingar með framfærslu frá félagsþjónustunni sem búa við mjög kröpp kjör, en mesta aukningin er meðal fólks sem hefur misst vinnuna. Þeir eru að ýmsu leyti í lakari stöðu en t.d. örorkuþegar. Þeir fá t.d. ekki afslátt af lyfjum sem þeir kunna að þurfa en hafa ekki úr hærri fjárhæðum að spila en þeir sem fá örorkubætur. Þetta er kostnaður sem margir ráða ekki við.
„Þjónustusvæði Hjálparsarfsins er allt landið. Hjálparstarf kirkjunnar er eina hjálparstofnunin sem veitir fólki á öllu landinu aðstoð. Það er gerlegt með samvinnu við presta í rúmlega 100 prestaköllum, félagsráðgjafa á stofnunum um land allt og námsráðgjafa í framhaldsskólum landsins. Net Hjálparstarfsins er þéttriðið Fyrir jólin fékk fólk úr 54 sveitarfélögum aðstoð eða úr 70% sveitarfélaga. Á síðasta starfsári dreifðist aðstoð á 62 sveitarfélög," að því er segir í tilkynningu.