Alþjóðlegum lögum framfylgt hér

Boris Berezovsky hefur verið í útlegð í Lundúnum í nokkur …
Boris Berezovsky hefur verið í útlegð í Lundúnum í nokkur ár. Reuters

Utanríkisráðuneytið segir, að alþjóðlegum lögum um fjármálastarfsemi sem framfylgt á Íslandi. Þá sé landið aðili að innri markaði Evrópusambandsins með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og því gildi sömu lög og reglur um fjármálastarfsemi og í Evrópusambandinu, þar á meðal um peningaþvætti og eftirlit með fjármálastarfsemi. Að auki taki Ísland þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn peningaþvætti.

Rússneski kaupsýslumaðurinn Boris Berezovsky fullyrti í viðtali á Sky sjónvarpsstöðinni í Bretlandi í kvöld, að rússnesk stjórnvöld hafi stundað peningaþvætti á Íslandi þar sem landið sé ekki í Evrópusambandinu. Þá hafi Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands,  „keypt“ Ísland með lánafyrirgreiðslu.

Um það síðarnefnda segir ráðuneytið í athugasemdum til Sky, að Rússland sé meðal þeirra ríkja, sem hafi boðið Íslandi fjárhagsaðstoð í tengslum við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland. Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Pólland hafi þegar samþykkt lán til Íslands en ekki sé búið að ganga frá lánasamningi við Rússland. Slíkur samningur yrði í engu frábrugðinn öðrum samningum og eina skilyrðið sem fylgi láni tengdu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé að það verði endurgreitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka