Samfylkingin lýsir miklum áhyggjum af hugmyndum um að lagðar verði niður hverfislöggæslustöðvar í Breiðholti og Grafarvogi. Þessar hugmyndir eru komnar fram af hálfu lögreglunnar og hafa verið kynntar borgarstjóra.
Ætlunin er að Árbæjarhverfi og Grafarvogshverfi verði þjónað frá Mosfellsbæ og Breiðholti úr Kópavogi. Vesturbæ Reykjavíkur á að sinna frá Seltjarnarnesi. Þessar breytingar myndu að mati Samfylkingarinnar rjúfa hina nánu samvinnu hverfislöggæslu og þjónustumiðstöðva borgarinnar sem deila húsnæði í Mjódd í Breiðholti og Miðgarði í Grafarvogi.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar spurðust fyrir um málið á fundi borgarráðs í morgun. Spurt var hvort þessar hugmyndir hafi verið unnar í samráði við Reykjavíkurborg og hvort athugasemdum eða mótmælum borgarinnar hafi verið komið á framfæri við yfirstjórn lögreglunnar. Ennfremur var spurt um afstöðu borgarstjóra til hugmynda um að leggja af hverfalöggæslustöðvar í Breiðholti og Grafarvogi og loks hver framtíðarsýn borgarstjóra væri um samstarf þjónustumiðstöðva og hverfalöggæslunnar í hverfum borgarinnar.