FÍS viðurkennir brot á lögum

Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) hefur viðurkennt að innan félagsins hafi átt sér stað umræður um verðlagsmálefni aðildarfyrirtækja félagsins sem starfa á sviði matvöru. Umræðurnar voru bæði á vettvangi stjórnar félagsins og innan matvöruhóps FÍS og hafi þær gengið lengra en samkeppnislög heimila. Hefur FÍS samþykkt að greiða eina milljón króna í stjórnvaldssekt, að því er fram kemur á vef Samkeppniseftirlitsins.

Að sama skapi hafi fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins rætt um hækkunarþörf félagsmanna á opinberum vettvangi sem hafi verið til þess fallið að raska samkeppni. Jafnframt hafi átt sér stað samskipti við Samtök verslunar og þjónustu um að félögin myndu tala einni röddu um ástæður umræddra verðhækkana. Hefur FÍS viðurkennt að hafa farið gegn samkeppnislögum að þessu leyti.

Ekki ásetningur um að hindra samkeppni

Af hálfu FÍS er þó tekið fram að ásetningur hafi ekki staðið til þess að hindra samkeppni.

Athugunin hófst í framhaldi af frétt í Ríkisútvarpinu þann 29. mars 2008, undir fyrirsögninni „Matarverð að hækka um 30%". Í fréttinni var m.a. haft eftir þáverandi framkvæmdastjóra FÍS að það væri ljóst að komin væri ákveðin hækkunarþörf og að það kæmi honum ekki á óvart ef matarverð myndi hækka um 20-30% á allra næstu vikum og mánuðum. 

„Með hliðsjón af því sem fram kom í fréttinni ákvað Samkeppniseftirlitið að hefja athugun á umfjöllun innan FÍS um matarverðshækkanir. Í ágúst 2008 sendi Samkeppniseftirlitið FÍS andmælaskjal, þar sem greint var frá frumniðurstöðum athugunarinnar og félaginu gefið færi á að tjá sig um þær.  FÍS skilaði sjónarmiðum sínum og óskaði í framhaldinu eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Sátt náðist um niðurstöðu málsins og byggir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á henni. Í sáttinni felst að FÍS fellst á að hafa brotið gegn 12., sbr. 10. gr. samkeppnislaga og fellst á að greiða eina milljón króna í stjórnvaldssekt.

FÍS eru samtök fyrirtækja og 12. gr. samkeppnislaga bannar slíkum samtökum fyrirtækja allt samkeppnishamlandi samráð. Í banni 10. gr. samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði felst að fyrirtæki ákveði sjálfstætt hvernig þau hegði sér á markaði og hvernig þau verðleggi vörur sínar og þjónustu. Mega samtök fyrirtækja með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna. Hvílir sérstaklega rík skylda á hagsmunasamtökum fyrirtækja að gæta þess að samvinna innan þeirra takmarki ekki samkeppni og valdi þar með neytendum ekki tjóni," að því er segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins.

Við mat á fjárhæð sekta er m.a. litið til þess að FÍS óskaði að eigin frumkvæði eftir sáttarviðræðum og hefur játað brot á samkeppnislögum. Með þessum aðgerðum sínum hefur FÍS auðveldað og stytt rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif.

Þá er litið til þess að FÍS hefur í máli þessu upplýst að félagið hafi sett sér almennar starfsreglur sem eftirleiðis muni gilda um alla starfsemi félagsins og öll samskipti þess við félagsmenn, sem og öll samskipti félagsmanna sín á milli á vettvangi félagsins. Ætti það að vinna gegn því að samskonar brot á samkeppnislögum eigi sér aftur stað innan vébanda FÍS. Hefur félagið og fallist á að hlíta fyrirmælum sem eru til þess fallin að efla samkeppni.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert