Geir: Tek minn hluta af ábyrgðinni

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde mbl.is/Kristinn

Geir H. Haar­de, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði í viðtali við þátt­inn Hard Talk á BBC í dag, að ís­lensk stjórn­völd og for­svars­menn ís­lensku bank­anna hafi talið að fjár­mögn­un þeirra væri í góðu lagi. Það hafi hins veg­ar breyst með falli Lehm­an Brot­h­ers. Geir sagði í viðtal­inu að hann taki sinn hluta af ábyrgðinni á fall­inu en það sé ekki tíma­bært að biðja af­sök­un­ar.

Geir sagði að það væri hlut­verk sér­staks sak­sókn­ara að finna út hvar ábyrgðin ligg­ur.  Stephen Sackur, þátta­stjórn­andi Hard Talk, spurði Geir út í orð Davíðs Odds­son­ar, for­manns banka­stjórn­ar Seðlabanka Íslands, um að hann hefði ít­rekað varað við því sem gæti gerst. Geir sagðist ekki geta staðfest það að Davíð hafi varað hann per­sónu­lega við mögu­legu hruni.

Sackur fór yfir það sem sagt hafi verið og hvað hafi reynst rétt, til að mynda lán frá Rúss­um. Geir sagði að lán Rúss­anna hafi síðar komið til sem hluti af láni Alþjóða gjald­eyr­is­sjóðsins, að vísu mun lægra lán held­ur en áður hafði verið talað um.

Hef­ur ekki rætt við Brown frá setn­ingu hryðju­verka­lag­anna

Geir sagði að breska yf­ir­völd hefðu aldrei brugðist við á sama hátt og þau gerðu gagn­vart Íslandi ef um stærra land hefði verið að ræða, til að mynda ef fransk­ur eða þýsk­ur banki hefði farið á hliðina líkt og Lands­bank­inn. Aðspurður sagði Geir að hann hefði ekki rætt við Gor­don Brown, for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, frá setn­ingu hryðju­verka­lag­anna gagn­vart Íslandi. „Ég hefði kannski átt að gera það."

Hann seg­ir að aðgerðir breskra stjórn­valda hafi haft mjög skaðleg áhrif á ís­lensk inn- og út­flutn­ings­fyr­ir­tæki.

Sackur spurði Geir hvort hann væri reiðubú­inn til þess að biðja ís­lensku þjóðina af­sök­un­ar. Að sögn Geirs var það sem ís­lensk stjórn­völd gátu gert var að koma starf­semi bank­anna af stað á ný. Hann viður­kenndi að það hafi verið mis­tök að ís­lenska út­rás­in var jafn mik­il og raun bar vitni. Það séu hins veg­ar mis­tök bank­anna.

Geir staðfesti að Ísland væri í al­var­legri efna­hagskreppu. Hann teldi hins veg­ar að það það þyrfti ekki að taka meira en tvö ár til að rétta úr kútn­um. Hvað varði mögu­lega aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og mynt­banda­lagi Evr­ópu sagði Geir að það sé eitt­hvað sem þurfi að skoða gaum­gæfi­lega. Hann sagðist hins veg­ar ekki vera reiðubú­inn til þess að breyta um stefnu og segja að Ísland eigi að ganga í ESB. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert