Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtali við þáttinn Hard Talk á BBC í dag, að íslensk stjórnvöld og forsvarsmenn íslensku bankanna hafi talið að fjármögnun þeirra væri í góðu lagi. Það hafi hins vegar breyst með falli Lehman Brothers. Geir sagði í viðtalinu að hann taki sinn hluta af ábyrgðinni á fallinu en það sé ekki tímabært að biðja afsökunar.
Geir sagði að það væri hlutverk sérstaks saksóknara að finna út hvar ábyrgðin liggur. Stephen Sackur, þáttastjórnandi Hard Talk, spurði Geir út í orð Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, um að hann hefði ítrekað varað við því sem gæti gerst. Geir sagðist ekki geta staðfest það að Davíð hafi varað hann persónulega við mögulegu hruni.
Sackur fór yfir það sem sagt hafi verið og hvað hafi reynst rétt, til að mynda lán frá Rússum. Geir sagði að lán Rússanna hafi síðar komið til sem hluti af láni Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, að vísu mun lægra lán heldur en áður hafði verið talað um.
Hefur ekki rætt við Brown frá setningu hryðjuverkalaganna
Geir sagði að breska yfirvöld hefðu aldrei brugðist við á sama hátt og þau gerðu gagnvart Íslandi ef um stærra land hefði verið að ræða, til að mynda ef franskur eða þýskur banki hefði farið á hliðina líkt og Landsbankinn. Aðspurður sagði Geir að hann hefði ekki rætt við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, frá setningu hryðjuverkalaganna gagnvart Íslandi. „Ég hefði kannski átt að gera það."
Hann segir að aðgerðir breskra stjórnvalda hafi haft mjög skaðleg áhrif á íslensk inn- og útflutningsfyrirtæki.
Sackur spurði Geir hvort hann væri reiðubúinn til þess að biðja íslensku þjóðina afsökunar. Að sögn Geirs var það sem íslensk stjórnvöld gátu gert var að koma starfsemi bankanna af stað á ný. Hann viðurkenndi að það hafi verið mistök að íslenska útrásin var jafn mikil og raun bar vitni. Það séu hins vegar mistök bankanna.
Geir staðfesti að Ísland væri í alvarlegri efnahagskreppu. Hann teldi hins vegar að það það þyrfti ekki að taka meira en tvö ár til að rétta úr kútnum. Hvað varði mögulega aðild að Evrópusambandinu og myntbandalagi Evrópu sagði Geir að það sé eitthvað sem þurfi að skoða gaumgæfilega. Hann sagðist hins vegar ekki vera reiðubúinn til þess að breyta um stefnu og segja að Ísland eigi að ganga í ESB.