Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði í efnahagsumræðunni á Alþingi í dag, að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eigi að setja það í forgang að hringja langlínusímtal í Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Í viðtali á BBC í morgun hafi Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra upplýst að hann hafi ekki rætt við Brown frá því að bankahrunið varð.
Jón vill að Jóhanna fái úr því skorið hvernig á því stóð að Bretar beittu Íslendinga hryðjuverkalögunum á sínum tíma. Þetta geti skipt höfuðmáli um það hvernig Íslendingar hagi málum sínum vegna Icesave deilunnar og hvort þeir leiti réttar síns fyrir dómstólum.